Norðurálsmótið 2015

25.08 2015 | 7. flokkur karla

Það er ekki hægt að fara yfir sumarmótin hjá yngri flokkunum okkar án þess að minnast á Norðurálsmótið sem var haldið hér með pompi, prakt og blíðskaparveðri helgina 19. -21. júní. Mótið hófst á glæsilegri skrúðgöngu allra liðanna frá Bæjarskrifstofunum og í Akraneshöllina þar sem mótið var sett.


Á mótinu voru alls hátt í 1500 keppendur og þar af 52 strákur úr 7. flokki hjá ÍA en ÍA átti einnig 4 gestalið á mótinu, eitt úr 7. flokki kvenna, 1 úr 8. flokki karla og 1 úr 6. Flokki karla og 1 blandað lið úr 6. Flokki karla og kvenna. Hvert lið Gestaliðin úr 7. fl.kvk og 8.fl.kk tóku aðeins þátt á föstudeginum en þetta var samt sem áður stór og ánægjuleg reynsla fyrir þá krakka sem tóku þátt, stelpurnar fengu að reyna sig á móti strákum á sama aldri og strákarnir voru að taka þátt í sínu fyrsta móti.


Sú nýbreytni var á mótinu að úrslit voru aðeins skráð á föstudegi með styrkleikaröðun fyrir laugardag og sunnudag í huga. Ekki var keppt til úrslita þá daga en þess í stað voru veitt háttvísiverðlaun í hverjum riðli fyrir sig. Þar réðu úrslitum plús og mínusstig sem liðin öfluðu sér á föstudegi og laugardegi, með framkomu innan sem utan vallar, umgengni í matsal og á gististöðum o.s.frv. Mæltist þetta fyrirkomulag víðast hvar vel fyrir og margir urðu til þess að hafa orð á því að þessu hafi fylgt afslappaðra andrúmsloft, bæði inni á vellinum og í hópi stuðningsmanna liðanna.


Það er rétt að benda á að mun fleiri myndir frá mótinu er að finna á facebook síðu félagsins og einnig er hægt að kaupa liðsmyndir og keppnismyndir hér: http://www.draumalidid.is/teams/174