Dýrmætt stig gegn KR í kvöld

13.09 2015

Skagamenn fengu KR í heimsókn í kvöld á Norðurálsvöllinn í stórveldaslag sem endaði með markalausu jafntefli. Uppleggið af hálfu ÍA var að halda hreinu í leiknum og það sást frá fyrstu mínútu. KR sótti stíft megnið af fyrri hálfleik en náðu ekki að brjóta sterka vörn ÍA á bak aftur. Skagamenn fengu fá færi í hálfleiknum en um miðjan hálfleikinn átti leikmaður KR að fá sitt annað gula spjald fyrir að brjóta á Ásgeiri Marteinssyni. Dómari leiksins sá enga ástæðu til þess heldur dæmdi bara aukaspyrnu. Varnarleikurinn stóð fyrir sínu og staðan var markalaus í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik hélt KR áfram að sækja og skapa sér nokkur hálffæri en komust lítt áleiðis gegn vörninni þar sem Ármann Smári Björnsson og Gylfi Veigar Gylfason voru í aðalhlutverki ásamt Árna Snæ Ólafssyni sem átti stórleik í markinu með úthlaupum sínum langt út fyrir vítateig. Skagamenn sköpuðu sér nokkur hálffæri í leiknum en næstur því að skora var Garðar Gunnlaugsson þegar hann átti skalla að marki KR sem markvörður þeirra varði. Undir lok leiksins stöðvaði dómari leiksins svo efnilega sókn ÍA þegar leikmaður KR lá á vellinum, til þess eins að gefa honum gult spjald og dæma aukaspyrnu á KR. Var mjög skiljanlegt að okkar menn væru allt annað en sáttir með þessa ákvörðun dómarans.

Leikurinn endaði því með markalausu jafntefli þar sem KR var sterkari aðilinn lengstan hluta leiksins en Skagamenn áttu sín færi og byggðu á mjög þéttri og öflugri vörn. Tvær stórar ákvarðanir frá dómara leiksins gerðu leik liðsins erfiðari en það var mikil barátta í okkar mönnum og það skilaði dýrmætu stigi heim sem skiptir okkar menn máli. Næsti leikur liðsins er svo gegn Keflavík sunnudaginn 20. september þar sem við getum farið langt með að tryggja sæti okkar í deildinni. Við köllum á stuðning Skagamanna til að mæta á þennan mikilvæga útileik.

Til baka