Frábær sigur á ÍBV í dag í Eyjum

03.10 2015

Skagamenn heimsóttu ÍBV á Hásteinsvöllinn í dag í leik sem endaði með frábærum 1-2 sigri. Eyjamenn hófu leikinn af krafti og þeir skoruðu strax á 11. mínútu. Töluvert jafnræði var með liðunum og fá marktækifæri litu dagsins ljós. Skagamenn komust betur inn í leikinn eftir því sem leið á hann og á 41. mínútu kom jöfnunarmarkið þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson átti góða rispu upp kantinn og náði fyrirgjöf inn í vítateig þar sem Garðar Gunnlaugsson stangaði boltann í netið. Með þessu marki tryggði Garðar sér bronsskóinn í deildinni með 9 mörk. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

 

Þegar seinni hálfleikur hófst var greinilegt að okkar menn ætluðu sér sigur því þeir sóttu af krafti. Á 49. mínútu náði ÍA að komast yfir þegar Darren Lough tók aukaspyrnu utan af kanti, boltinn fór framhjá öllum leikmönnum og skoppaði framhjá markverði ÍBV í fjærhornið, skrautlegt en fyrsta mark Darren á tímabilinu kom á góðum tíma. Eftir þetta áttu Skagamenn hættulegri færi og Ásgeir Marteinsson kom boltanum í netið en það var dæmt af vegna rangstöðu. Eyjamenn áttu fáar sóknir sem ógnuðu marki ÍA en Árni Snær Ólafsson varði vel þegar á reyndi. Leikurinn fjaraði svo út og 1-2 sigur staðreynd.

 

Leikurinn endaði því með góðum 1-2 sigri okkar manna og sjöunda sæti í deildinni er tryggt. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti í áratug sem ÍA vinnur í Vestmannaeyjum. Leikur liðsins í dag var góður og gaman að fylgjast með Tryggva Hrafni Haraldssyni spila sinn fyrsta leik í byrjunarliði í Pepsi-deildinni og Ragnar Már Lárusson spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild þegar hann kom inn á sem varamaður. Ekki má gleyma innkomu Arnórs Sigurðssonar, en hann spilaði einnig sinn fyrsta leik í efstu deild aðeins 16 ára gamall og er með yngstu leikmönnum ÍA í gegnum tíðina til að byrja ferilinn í meistaraflokki. Strákarnir eiga heiður skilinn fyrir góða spilamennsku í sumar og allir hafa þeir staðið sig með prýði. Að endingu viljum við svo þakka stuðningsmönnum fyrir gott og skemmtilegt tímabil.

Til baka