Frábær sigur á Keflavík í kvöld

22.06 2015

Skagamenn mættu liði Keflvíkinga í kvöld á Norðurálsvellinum og endaði leikurinn með mikilvægum heimasigri 4-2. Skagaliðið byrjaði leikinn af krafti og eftir tveggja mínútna leik skoraði Arsenij Buinickij eftir frábæran undirbúning og sendingu frá Ólafi Val Valdimarssyni. Keflvíkingar jöfnuðu metin skömmu síðar. Þeir komust svo yfir eftir rúmlega hálftíma leik en þá fóru okkar menn í gang og skoruðu tvö mörk. Fyrst skoruðu gestirnir sjálfsmark og svo skoraði Albert Hafsteinsson gott skallamark eftir undirbúning Jóns Vilhelms Ákasonar og Ásgeirs Marteinssonar. Fórum við með 3-2 forystu í hálfleik í ótrúlega skemmtilegum fyrri hálfleik.

 

Keflvíkingar komu öflugir inn í seinni hálfleik og fengu vítaspyrnu sem Árni Snær Ólafsson varði frábærlega. Gestirnir áttu fjölda færa og okkar menn voru í stökustu vandræðum með að halda aftur af þeim en vörnin stóð sína vakt með Ármann Smára Björnsson og Gylfa Veigar Gylfason í aðalhlutverki. Undir lok leiksins náðu Skagamenn svo að klára leikinn þegar Ásgeir Marteinsson skoraði gott mark eftir stungusendingu frá Arnari Má Guðjónssyni.

 

Skagamenn unnu því 4-2 sigur í leik þar sem bæði lið fengu tækifæri til þess að skora fleiri mörk en misnotuðu færin og má segja að okkar menn hafi verið heppnir miðað við sóknarlotur Keflvíkinga. Það ber að hrósa Skagaliðinu fyrir leikinn í kvöld. Spilamennskan var heilt yfir mjög góð og við skorum jafnmörg mörk í kvöld og í fyrstu átta leikjunum. Strákarnir eru að spila góðan bolta í síðustu leikjum og frammistaðan er til fyrirmyndar.

 

Framundan er mikilvægur leikur gegn Valsmönnum á Vodafonevellinum sunnudaginn 28. júní kl. 19:15. Hvetjum við Skagamenn til að fjölmenna á þann leik.

Til baka