ÍA fékk mikilvægt stig gegn Þór/KA í dag

07.08 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði við Þór/KA í dag á Norðurálsvellinum en þetta var ellefti leikur liðsins í Pepsi-deild kvenna. Þór/KA byrjaði af meiri krafti og komst yfir þegar nokkuð var lifið á leikinn. Eftir því sem leið á hálfleikinn komst ÍA betur inn í leikinn og skapaði sér álitleg færi sem ekki náðist að nýta. Þór/KA sótti töluvert og náði að skapa sér markverð færi en þeir náðu ekki að bæta við fleiri mörkum. Staðan í hálfleik var því 0-1. 


Í seinni hálfleik var svo mikil barátta í gangi og hvorugt liðið gaf neitt eftir. Stelpurnar börðust af miklum krafti og áttu góðar sóknir og það skilaði sér á 59. mínútu þegar Megan Dunnigan skoraði með góðu skoti eftir að hafa komist inn fyrir vörn Þórs/KA. Eftir markið sóttu Skagamenn af miklum móð og reyndu að ná öðru marki en náðu ekki að nýta nokkuð góð færi. Gestirnir fengu nokkur ágæt færi en náðu sjaldan að ógna sterkri vörn ÍA. Leikurinn endaði því 1-1 og gott stig í hús á móti einu af betri liðum deildarinnar.


Næsti leikur er gegn Selfoss sem fer fram miðvikudaginn 17. ágúst kl. 14:00 á Selfossvelli. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka