Kalli Þórðar fær gullmerki Knattspyrnufélags ÍA

08.06 2015

Karl Þórðarson heiðraður af Knattspyrnufélagi ÍA.


Þann 31. maí sl. varð Karl Þórðarson 60 ára. Af því tilefni hefur Knattspyrnfélag ÍA ákveðið heiðra hann með gullmerki félagsins. Knattspyrnuferill Karls var í senn viðburðaríkur og sigursæll. Hann lék sinn fyrsta leik með Akranesliðinu í júní 1972, þá nýorðinn 17 ára gamall. Hann varð fljótt einn lykilmanna liðsins og var einstaklega litríkur og skemmtilegur á leikvelli og vann fljótt hug og hjörtu knattspyrnuáhugafólks víða um land.
Ferill Karls á Akranesi má skipta í tvennt.  Hann lék með liðinu fram til loka ársins 1978 og hafði þá þrívegis orðið Íslandsmeistari og var auk þess í fyrsta bikarmeistaraliði félagsins 1978. Hann hélt síðan í atvinnumennsku til Belgíu og síðar Frakklands og var þar fram til 1984 að hann kom að nýju á heimaslóðir og lék með Akranesliðinu með hléum allt þar til hann lagði skóna á hilluna 1994.
Enginn leikmaður liðsins hefur leikið jafn langan feril og Karl en tuttugu og tvö ár liðu á milli fyrsta og síðasta leiks hans.
Karl lék 366 leiki með Akranesliðinu og skoraði í þeim 54 mörk. Hann er meðal leikjahæstu leikmanna liðsins frá upphafi. Hann lék 16 A landsleiki á árunum 1975-1984 og einn U-19 landsleik 1972. Hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari og tvívegis bikarmeistari á sínum ferli.
Akurnesingar eiga Karli mikið að þakka fyrir  þátttöku hans í knattspyrnu-ævintýri Skagamanna. Hann hefur alla tíð verið afar vinsæll og vellátinn af öllum.
Knattspyrnufélag ÍA færir honum og fjölskyldu hans  hamingjuóskir á merkum tímamótum.

Meðfylgjandi mynd var tekin af Kalla, Magnúsi Guðmundssyni formanni KFÍA og Sævari Frey Þráinssyni varaformanni KFÍA við afhendinguna á leik ÍA og Fylkis í gær.

Til baka