Pepsideild kvenna: Allir á völlinn! ÍA - Fylkir

23.08 2016

Á morgun, miðvikudaginn 24. ágúst, fer fram leikur ÍA og Fylkis í Pepsideild kvenna hér á Norðurálsvellinum. Leikurinn hefst kl. 18:00.

 

Skagastelpur sitja fyrir leikinn í 9. sæti deildarinnar með 8 stig, en þar af hefur liðið sótt 7 stig í síðustu fjórum leikjum sem er með því betra sem gerist í deildinni. Fylkir er í 7. sæti með tveimur stigum meira og okkar stelpur geta því komist uppfyrir Fylki með sigri. Það er auðveldlega hægt að halda því fram að um mikilvægan leik sé að ræða en þeir eru það auðvitað allir, t.d. getur stigið sem liðið náði í á móti Þór/KA hér í síðasta heimaleik verið afar dýrmætt þegar upp er staðið.

 

Að sjálfsögðu verða fastir liðir hjá okkur í tengslum við leikinn. Hinn öflugi heimaleikjahópur mun bjóða upp á kaffiveitingar í hálfleik og seldir verða happdrættismiðar. Einnig verður valinn maður leiksins og hlýtur hún að launum verk eftir listakonuna Ingu Björgu Sigurðardóttur sem starfar í dag sem móttökuritari á H.V.E. Hún hefur alltaf haft einstaklega gaman af allskonar sköpun eins og að mála,prjóna,baka og búa til mat. Henni er það sönn ánægja að gefast kostur að vera með í verðlaunaafhendingu ungra kvenna sem spreyta sig í íþróttum með góðum árangri. Vonar hún bara að myndin gleðji þá sem hlýtur. Myndin sjálf er ung Lísa í ævintýrum sem hún sjálf hefur mjög gaman af. Á meðfylgjandi mynd má sjá listakonuna með verkið.

 

Þessu til viðbótar er okkur sönn ánægja að segja frá því að stelpurnar í 4. flokki kvenna urðu nú á dögunum Íslandsmeistarar í 7 manna bolta og munum við nota tækifærið og afhenda þeim verðlaun í hálfleik.

 

Það er umtalað hvað Skagamenn eru duglegir að mæta á völlinn og styðja við sínar stelpur. En það má lengi bæta í og aukinn stuðningur mun alltaf lyfta liðinu. Mætum öll á völlinn og hjálpum stelpunum að tryggja áframhaldandi veru í Pepsideildinni.

 

Áfram ÍA

 

Til baka