Skagamenn töpuðu 2-4 gegn KA í 1. deild karla

15.07 2014

Skagamenn mættu í kvöld liði KA á Norðurálsvellinum og lyktaði leiknum með svekkjandi 2-4 tapi. Gestirnir náðu frumkvæðinu í leiknum eftir 9 mín leik með glæsilegu marki en það var Hallgrímur Mar Steingrímsson sem skoraði það með þrumufleyg utan af velli upp í markhornið fjær. Skagamenn minnkuðu muninn einungis tveimur mínútum síðar og þar var á ferðinni Garðar Gunnlaugsson með marki úr vítaspyrnu sem dæmd hafði verið réttilega eftir brot á Jóni Vilhelm Ákasyni.

Liðin skiptust á að sækja eftir þetta en á 18 mín leiksins náðu KA menn aftur forystunni en þá skoraði Atli Sveinn Þórarinsson með skalla eftir hornspyrnu. Skagamenn freistuðu þess að jafna metin eftir þetta og næst því komst Garðar Gunnlaugs þegar skalli hans var varinn glæsilega í slánna og aftur fyrir endamörk.

Þar við sat í hálfleik og staðan 1-2 fyrir KA.

Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA þurfti að gera breytingu á sínu liði í hálfleik en þá fór Arnar Már Guðjónsson út af vegna meiðsla fyrir Jón Björgvin Kristjánsson.

Seinni hálfleikurinn byrjaði ekki gæfulega hjá okkar mönnum því eftir einungis örfáar mínútur þá höfðu Norðanmenn bætt í forystuna. KA liðið nýtti sér þá mikinn sofandahátt í vörn Skagaliðsins og KA maðurinn Ævar Ingi Jóhannesson skoraði örugglega í mark heimamanna af stuttu færi.

Skagamenn freistuðu þess að minnka muninn eftir þetta og færðist mikið líf í sóknarleik liðsins þegar Eggert Kári Karlsson kom inn á völlinn á 72 mín leiksins. Skagaliðið sótti án afláts á þessum tíma og fékk Garðar Gunnlaugs tvö fín færi á markteig bæði eftir fínan undirbúning frá Eggerti Kára. Pressan bar árangur á 80 mín leiksins þegar Jón Vilhelm Ákason skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu og staðan orðin 2-3.

Skagamenn freistuðu þess að jafna metin á síðustu mínútum leiksins og færðu meðal annars Ármann Smára í fremstu víglínu en allt kom fyrir ekki og tókst KA liðinu í staðinn að refsa heimamönnum með marki úr skyndisókn. Fleiri urðu mörkin ekki og niðurstaðan 2-4 fyrir sterku KA liði.

Það má segja að byrjun Skagaliðsins í leiknum hafi orðið því að falli í kvöld. Gestirnir frá Akureyri mættu virkilega ákveðnir til leiks og náðu frumkvæðinu í tvígang í fyrri hálfleik auk þess sem þeir bættu í forystuna strax í byrjun þess síðari. Skagaliðið náði þó oft á tíðum upp fínum spilköflum í sínum leik og við það sköpuðust nokkur álitleg marktækifæri. Þeir gulklæddu náðu einmitt fínni pressu á KA liðið síðasta stundarfjórðunginn en því miður dugði hún skammt.

Nú er fyrri umferð í 1 deild karla lokið og situr Skagaliðið í 2. sæti deildarinnar með 21 stig. Framundan er útileikur gegn liði Selfyssinga á föstudaginn kemur og þar ætlum við okkur að sjálfsögðu þrjú stig.

Til baka