Skagamenn töpuðu gegn FH í kvöld í hörkuleik

03.08 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við FH á Norðurálsvelli í 13. umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn stefndu á sinn sjötta sigur í röð en FH ætlaði sér þrjú stig eftir brösótt gengi upp á síðkastið. Nokkurt jafnræði var milli liðanna framan af leik og voru þau að reyna að skapa sér markverð færi. Það var svo á 16. mínútu sem Þórður Þorsteinn Þórðarson tók leikinn í sínar hendur þegar hann skoraði með bylmingsskoti af 30 metra færi. Stórkostlegt mark og FH mátti sín lítils. ÍA hélt svo áfram að sækja og skapaði sér nokkur góð færi.


FH var sterkari aðilinn og skapaði sér ágæt færi og á 34. mínútu kom svo jöfnunarmarkið eftir hornspyrnu. Mikil barátta var í fyrri hálfleik og Skagamönnum gekk á köflum illa að halda boltanum innan liðsins. Á sama tíma voru Hafnfirðingar töluvert meira með boltann en náðu ekki að brjóta niður sterka vörn ÍA. Staðan í hálfleik var því 1-1. 

 

Gestirnir komu mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og ætluðu að gefa sig alla í leikinn. Það skilaði marki strax eftir sex mínútna leik eftir varnarmistök og eftirleikurinn varð erfiður fyrir ÍA. Skagamenn fóru að sækja meira og reyna að jafna metin og fengu góð færi til þess. FH beitti skæðum sóknarlotum og á 62. mínútu kom þriðja mark þeirra eftir langskot.

 

Eftir þriðja markið var staðan orðin mjög erfið og Skagamenn náðu lítið að ógna geysisterkri vörn FH þó nokkur hálffæri sköpuðust. FH átti nokkrar góðar sóknir sem þeir nýttu ekki undir lok leiksins. Leikurinn endaði því með 1-3 sigri FH.

 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Þórður, Ármann Smári, Arnór Snær og Aron Ingi. Á miðjunni voru Iain James, Albert, Ólafur Valur og Jón Vilhelm. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Steinar, Guðmundur Böðvar og Ásgeir.


Næsti leikur er svo gegn Fjölni á Fjölnisvelli sunnudaginn 7. ágúst kl. 19:15. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka