Skagamenn unnu flottan 2-0 sigur á HK-ingum

06.06 2014

Skagamenn mættu í kvöld HK-ingum í rjómablíðu á Norðurálsvellinum á Akranesi að viðstöddum 537 áhorfendum en leiknum lyktaði með góðum 2-0 sigri okkar manna.

Byrjunarlið Skagamanna var þannig skipað í leiknum: Árni Snær - Sindri Snæfells, Ármann Smári, Gylfi Veigar, Darren Lough – Ingimar Elí, Arnar Már, Hallur Flosa, Eggert Kári, Jón Vilhelm – Garðar Gunnlaugs.

Skagamenn byrjuðu leikinn mun betur og má segja að fyrstu tuttugu mínútur leiksins hafi verið einstefna að marki gestanna. Þeir gulklæddu náðu að skapa sér nokkur góð færi á þessum leikkafla og átti Jón Vilhelm til að mynda flotta aukaspyrnu sem var varin auk þess sem Garðari Gunnlaugs brást bogalistinn úr dauðafæri af markteig. Stuttu síðar komst Garðar aftur í fínt færi en fastur skalli hans af markteig fór rétt yfir markið eftir frábæra fyrirgjöf frá Halli Flosa.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta en Skagamenn voru þó áfram líklegri. Það var síðan á 37 mín leiksins sem Darren Lough tók flotta aukaspyrnu inn á teig gestanna og þar var mættur Arnar Már Guðjónsson sem skallaði boltann laglega aftur fyrir sig og yfir markmann HK-inga í netið. Virkilega vel gert hjá Arnari og staðan orðin 1-0 fyrir þá gulklæddu. Lítið markvert gerðist eftir þetta fram að hálfleik og verðuskulduð 1-0 forysta staðreynd.

HK-liðið kom sterkara til leiks í síðari hálfleik og freistaði þess að jafna leikinn á meðan okkar menn duttu aðeins aftar á völlinn. Vörn Skagamanna var þó traust og gaf fá færi á sér.

Gunnlaugur Jónsson þjálfari Skagamanna gerði breytingu á sínu liði á 60 mín leiksins en inn á kom Hjörtur J. Hjartarson fyrir Ingimar Elí Hlynsson. Á 73 mín leiksins áttu Skagamenn frábæra sókn sem hófst með glæsilegri sendingu Garðars Gunnlaugssonar yfir á vinstri kantinn þar sem Darren Lough tók við boltanum og lagði hann á Eggert Kára sem var sloppinn í gegn en því miður dæmdur rangstæður, sem virkaði tæpt afar tæpt frá sjónarhorni fréttaritara.

Gulli þjálfari gerði aðra breytingu stuttu eftir þetta en þá kom Þórður Þ. Þórðarson inn á fyrir Jón Vilhelm Ákason. Einhverjum sekúndum síðar kom löng sending inn á teig gestanna en þar tók Hjörtur Hjartar laglega við boltanum og lagði hann fyrir fætur Þórðar Þ. Þórðarsonar sem skoraði örugglega í mark gestanna með sinni fyrstu snertingu í leiknum. Vel gert hjá þessum unga og efnilega leikmanni.

Skagamenn tóku öll völd á vellinum eftir þetta og gestirnir voru aldrei líklegir til þess að minnka muninn. Þeir gulklæddu sigldu þessu örugglega heima og niðurstaðan virkilega sanngjarn 2-0 sigur á liði HK-inga. Allt Skagaliðið átti flottan leik í kvöld. Liðið byrjaði leikinn af krafti og sótti án afláts fyrri part fyrri hálfleiks og lítið sem ekkert reyndi á Árna í markinu. Skagaliðið datt þó aðeins neðar á völlinn í upphafi þess síðari en eftir að annað markið datt inn þá var þetta aldrei í hættu. Flottur karakter hjá strákunum líka sem hafa nú unnið tvo góða sigra í röð eftir svekkjandi tap gegn Víkingi.

Næsti leikur Skagamanna verður gegn Tindastól laugardaginn 14 júní næstkomandi.

Til baka