Stelpurnar töpuðu fyrir Þór/KA í kvöld

19.05 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði í kvöld við Þór/KA á Þórsvelli en þetta var annar leikur liðsins á Íslandsmótinu. Töluvert jafnræði var framan af í fyrri hálfleik milli liðanna en Þór/KA skapaði sér hættulegri færi og skoraði mark á 31. mínútu. Stelpurnar lögðu þó ekki árar í bát heldur reyndu að jafna metin og sköpuðu nokkur hálffæri sem ekki náðist að nýta. Staðan var því 1-0 í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik var svo mikil stöðubarátta framan af og hvorugt liðið ætlaði að gefa neitt eftir. Vendipunktur leiksins var á 61. mínútu þegar dæmd var vítaspyrna á varnarmann ÍA fyrir hendi og úr henni skorar Þór/KA. Voru stelpurnar allt annað en sáttar með þessa ákvörðun dómarans enda fyrir litar sakir. Eftir þetta varð leikurinn erfiðari fyrir ÍA og Þór/KA sótti af krafti sem skilaði tveimur mörkum til viðbótar. Stelpurnar fengu nokkur góð færi til að komast inn í leikinn en þrátt fyrir góðar tilraunir tókst það ekki. Leikurinn endaði því með 4-0 sigri Þórs/KA.
 

Næsti leikur er svo gegn Selfoss þriðjudaginn 24. maí kl. 19:15. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka