“Það verður hart barist um þau stig sem eru í boði”

08.08 2014

Baráttan heldur áfram hjá Skagaliðinu í 1. deild karla í kvöld en þá koma Þróttarar í heimsókn á Norðurálsvöllinn og má segja að um sannkallaðan toppbaráttuslag sé að ræða þar sem að liðin verma 2. og 3. sæti deildarinnar.
Skagaliðið vann góðan útisigur í síðustu umferð á liði Víkinga Ó. á meðan Þróttarar máttu sætta sig við tap á heimavelli gegn liði Selfyssinga. Nokkurt hlé var gert á deildinni yfir Verslunarmannahelgina en leikur Skagamanna og Þróttara hefst kl 19.15 í kvöld.
Við heyrðum af þessu tilefni í þjálfara Skagamanna, Gunnlaugi Jónssyni og lögðum fyrir hann nokkrar spurningar:
Skagaliðið vann frábæran 1-3 útisigur á Víkingum í síðustu umferð. Ef þú rennir aðeins yfir þann leik með okkur, hvernig fannst þér hann leikinn af okkar hálfu?
„Ég var fyrst og fremst gríðarlega ánægður með hugarfarið, vinnusemina og liðsheildina. Ég get viðurkennt að leikurinn var ekki fallegur af okkar hálfu, við komum vestur til að sækja þessi 3 stig og það tókst. Það lögðust allir á eitt, við vissum að við að værum að heimsækja erfiðan útivöll gegn liði sem ÍA hefur átt í miklu basli undanfarin ár og ekki síst að spila við gott lið sem hafði styrkt sig verulega í leikmannaglugganum, því var þetta mjög sætur sigur.“
Einhver meiðsli hafa verið að plaga liðið undanfarnar vikur. Hvernig er standið á hópnum í dag? Eru einhverjir ennþá frá vegna meiðsla?
„Ástand manna er að batna, Andri Adolphs, Jón Vilhelm og Hallur Flosa eru allir byrjaðir að æfa að nýju og við verðum eiginlega að sjá það stuttu fyrir leik hvort þeir verða klárir í slaginn gegn Þrótti eða ekki. Við höfum einnig endurheimt Árna Snæ markmann úr leikbanni.“
Framundan er toppbaráttuslagur gegn liði Þróttara. Hvernig horfir sú viðurreign við þér?
„Þetta verður enn einn stórslagurinn í þessari deild, þessi deild er mjög jöfn og það verður hart barist um þau stig sem eru í boði og við ætlum að vera klárir í slaginn gegn Þrótturum“ segir Gunnlaugur Jónsson í samtali við vefsíðu KFÍA
Við hvetjum alla Skagamenn til þess að fjölmenna á völlinn og styðja strákana til sigurs.

Til baka