Lög KFÍA

Samþykkt á aðalfundi þann 19. nóvember 2009. Breyting á aðalfundi 18. febrúar 2016.


1. grein
Félagið heitir Knattspyrnufélag ÍA, skammstafað KFÍA. Aðsetur þess og heimili er á
Akranesi.

2. grein
Markmið og tilgangur félagsins er að iðka knattspyrnu, efling knattspyrnu-, æskulýðs- og
félagsmála svo og að stuðla að bættri aðstöðu til iðkunar knattspyrnu á Akranesi.

3. grein
Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því að:

 • Sjá iðkendum innan vébanda KFÍA fyrir góðri knattspyrnuþjálfun vel menntaðra þjálfara.
 • Standa fyrir og taka þátt í knattspyrnumótum.
 • Halda uppi fræðslu og vönduðu félagslífi þar sem áhersla er lögð á heilbrigt líf og vinna gegn vímuefnanotkun.
 • Leggja áherslu á fagleg og góð vinnubrögð í uppeldisstarfi sínu, fræðslu og þjálfun.
 • Standa fyrir nauðsynlegri uppbyggingu íþróttamannvirkja eða rekstri þeirra eftir því sem ákveðið er hverju sinni.


4. grein
Félagi getur hver sá orðið sem óskar þess enda greiði hann félags og/eða iðkendagjald.
Sérstakt félagatal skal haldið af stjórn félagsins. Tilkynningu um félagsaðild og úrsögn úr
félaginu skal skila skriflega til skrifstofu félagsins. Árgjald félagsmanna skal ákveðið á
aðalfundi félagsins.

5. grein
Með stjórn félagsins fara:

 • Aðalfundur.
 • Stjórn félagsins.

Milli aðalfunda fer stjórn félagsins með stjórnun og stefnumótun þess innan ramma laga
félagsins. Undir stjórn félagsins starfar uppeldissvið. Stjórn félagsins setur uppeldissviði
félagsins starfsreglur og afmarkar starfssvið þess. Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra
félagsins, þjálfara m.fl. karla og kvenna auk yfirþjálfara og felur framkvæmdastjóra ráðningar
á öðrum starfsmönnum. Stjórn félagsins annast gerð fjárhagsáætlunar fyrir félagið í samráði
við framkvæmdastjóra og staðfestir öll útgjöld sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun.


Stjórn félagsins er heimilt að skipa þriggja manna framkvæmdastjórn, formanns,
varaformanns og gjaldkera, sem starfar með framkvæmdastjóra félagsins á milli
stjórnarfunda. Framkvæmdastjórn er heimilt að taka ákvarðanir sem varða félagið og rúmast
innan fjárhagsáætlunar. Þá er stjórn félagsins heimilt að skipa verkefnahópa sem annast
einstök verkefni á vegum félagsins í umboði stjórnar.

6. grein
Stjórn félagsins skipa sjö fulltrúar kjörnir á aðalfundi: formaður, varaformaður, gjaldkeri,
ritari, tveir meðstjórnendur og formaður uppeldissviðs. Jafnframt skal kjósa tvo varamenn
stjórnar. Þá skal á aðalfundi kjósa fjóra fulltrúa til viðbótar í uppeldissvið og tvo til vara. Formaður félagsins og formaður uppeldissviðs skulu kosnir sérstaklega, en stjórn félagsins skiptir að öðru leyti með sér verkum

 

7. grein
Aðalfundur hefur æðsta ákvörðunarrétt í öllum málefnum félagsins. Skal hann haldinn eigi
síðar en 20. febrúar ár hvert. Til fundarins skal boða með a.m.k. einnar viku fyrirvara og skal

fundurinn auglýstur með opinberum hætti með auglýsingu og á heimasíðu félagsins.
Aðalfundurinn telst lögmætur ef löglega er til hans boðað og a.m.k. 20 félagar mæta á
fundinn. Ef ekki mæta 20 félagar á fundinn skal boða til nýs fundar og telst hann löglegur ef
löglega er til hans boðað.

Á milli aðalfunda skal starfandi þriggja manna kjörnefnd sem gerir tillögu til aðalfundar um
skipun stjórnar og sviða.

8. grein
Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

 • Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 • Skýrsla stjórnar félagsins.
 • Ársreikningur félagsins.
 • Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir komandi rekstrarár.
 • Lagabreytingar
 • Kosning formanns stjórnar.
 • Kosning fimm fulltrúa í stjórn og tveggja til vara.
 • Kosning formanns uppeldissviðs.
 • Kosning fjögurra fulltrúa í uppeldissvið félagsins og tveggja til vara.
 • Kosning tveggja skoðunarmanna félagsins eða endurskoðunarskrifstofu ef ársreikningur
 • félagsins er endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda.
 • Kosning kjörnefndar.
 • Kosning þriggja fulltrúa í fagráð.
 • Ákvörðun um árgjald.
 • Heiðursviðurkenningar.
 • Önnur mál.


Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, nema þegar um er að ræða
tillögur til breytinga á lögum félagsins, en þær verða að samþykkjast af 2/3 atkvæðisbærra
fundarmanna.

Kosningar skulu vera skriflegar, ef þess er óskað. Séu atkvæði jöfn við stjórnarkjör skal
kosning endurtekin. Verði atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða.

Rétt til setu á aðalfundi hafa allir skráðir félagar sem greitt hafa árgjald til félagsins og eru
skuldlausir við það. Þeir eru jafnframt kjörgengir til stjórnarstarfa með atkvæðisrétt, tillögurétt
og málfrelsi á fundinum.

9. grein
Aukaaðalfund má halda ef stjórn félagsins telur þess þörf eða ef ¼ skráðra félaga óskar eftir
því. Aukaaðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað sbr. 7. gr. Aukaaðalfundur
getur tekið ákvörðun um öll málefni félagsins þ.m.t. lagabreytingar. Stjórnarkosning skal þó
ekki fara fram á aukaaðalfundi nema rétt kjörin stjórn sé af einhverjum ástæðum óstarfhæf.

10. grein
Reikningar félagsins miðast við almanaksárið og skulu þeir endurskoðaðir og liggja frammi á
skrifstofu félagsins eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund.

11. grein

Heimilt er stjórn félagsins að vísa hverjum þeim úr félaginu er brýtur lög félagsins, gerist
sekur um óprúðmannlega framkomu eða vinnur gegn hagsmunum þess,. Ákvörðun stjórnar
skal lögð fyrir næsta aðalfund til staðfestingar.

12. grein
Félagið skal vera aðili að Íþróttabandalagi Akraness (ÍA) og leika undir nafni þess. Búningur
félagsins skal vera gul treyja, svartar buxur og svartir sokkar.

13. grein
Tillaga til slita á Knattspyrnufélagi ÍA þarf samþykki 4/5 hluta atkvæðisbærra fulltrúa á
aðalfundi eða aukaaðalfundi félagsins.

14. grein
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi eða aukaaðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3
hluta fundarmanna. Tillögur um lagabreytingar skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins eigi
síðar en 7 dögum fyrir aðalfund eða aukaaðalfund. Með samþykki 2/3 hlutar
aðalfundarmanna er heimilt að taka fyrir á aðalfundi eða aukaaðalfundi tillögu um breytingu á
lögum félagsins.

15. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Akranesi 19. febrúar 2016
Þannig samþykkt eftir breytingu á
aðalfundi 18. febrúar 2016.

Lög Knattspyrnufélags ÍA (pdf)