{texti}

Ferðasaga 3.fl.kk til Vildbjerg

21.09 2015 | 3. flokkur karla

3.flokkur karla hjá ÍA fór til Danmerkur þann 29.júlí sl og var ferðinni heitið á Vildbjerg Cup. Það er komin hefð hjá ÍA að senda 3.fl á þetta mót og hafa þau farið til skiptis strákarnir og stelpurnar.

 

Eftir mikla vinnu hjá strákunum (og foreldrum) við að fjárafla og skipulagningu hjá foreldrafulltrúum var loksins komið að þessu. Flogið var á Billund og þar beið rúta eftir að flytja okkur til Vildbjerg. Miðvikudagurinn fór í það að koma sér fyrir og kanna umhverfið en Vildbjerg er lítið bæjarfélag með um 3700 íbúa en á meðan á mótinu stendur margfaldast íbúafjöldinn þar sem ca 10.000 krakkar taka þátt í mótinu í 736 liðum og annað eins er af foreldrum og systkinum að fylgjast með. Gist var í húsi við hliðina á Sportcenterinu þar sem betur fer var Wifi þar sem langflestir strákanna voru í fullu starfi við að stjórna fótboltaliði í framtíðinni (símaleikur) og voru þjálfararnir ekki undanskyldir þar.

 

Mótið var sett á fimmtudeginum, hvort liðið spilaði einn leik þann daginn og svo 2 leiki á föstudeginum, unnu bæði liðin 1 leik og töpuðu 2. Á laugardeginum hófst undankeppnin þar sem ÍA2 spilaði 2 leiki en ÍA1 einn leik, hvorugt liðið komst áfram þrátt fyrir jafntefli þar sem andstæðingurinn fékk fleiri hornspyrnur, undarleg regla það. Bæði lið stóðu sig mjög vel, sigrar og töp eins og fylgir en spiluðu góðan bolta og lögðu sig allan fram. En lífið er ekki bara fótbolti og á föstudagskvöldinu var boðið upp á froðudiskó en flestum fannst þeir vera orðnir of gamlir fyrir það og létu sér nægja að horfa á það úr fjarlægð og á laugardeginum var svo grillveisla og flugeldasýning við Sportcenterið.

 

Sunnudeginum var eytt í afslöppun, leikið sér í körfubolta, símanum, fótbolta, kíkt á stelpurnar frá Fjarðabyggð/Hetti sem spiluðu til úrslita í mótinu og einhverjir fóru á lokahátíðina sem haldin var um miðjan daginn.

 

Á mánudeginum lá svo leiðin í Djurs Sommerland sem var eitt af hápunktum ferðarinnar. Fengum frábært veður þann daginn og áttum mjög góðan dag þar sem strákarnir fengu útrás í hinum ýmsu tækjum og fylltu á orkubirgðarnar á girnilegu hlaðborði á Wild West.

 

Þriðjudagurinn var svo notaður til að fata sig upp en þá var lestin tekin til Herning þar sem deginum var eytt í mollinu þar og einhverjir létu rigninguna ekki stoppa sig og röltu einnig á göngugötuna en þann dag var svona íslenskt sýnishorna veður, sól, rigning og þrumur.

 

Á miðvikudeginum var síðan haldið heim á leið, rúta aftur til Billund og síðan beint flug heim. Ánægjulegri ferð lokið og allir sáttir, þar á meðal þjálfarar og fararstjórar og fannst gott að komast heim.