ÍA á ReyCup

17.09 2015 | 4. flokkur karla

Enn hefur ekki tekist að gera öllum helstu sumarmótunum skil en hér kemur það síðasta. Iðkendur úr 3. kvenna og 4. flokki hjá báðum kynjum tóku þátt á ReyCup 22.-26. júlí síðastliðinn. Eins og með Símamótið byggir frásögnin á upplýsingum frá þjálfurum, sem eðlilega segja mismunandi ítarlega frá. Þess má geta að við fréttum af skemmtilegum hópeflisleik hjá 4. flokki kvenna og gátum ekki stillt okkur um að spyrja betur út í hann, og láta það fylgja með hér.

 

Úr 4. Flokki karla fóru 31 strákur sem skiptust í 2 lið. A-liðið vann sinn riðil en tapaði í undanúrslitum. Léku því næst um bronsið en þrátt fyrir flottan leik tapaðist hann með minnsta mun. B-liðið endaði í 4. sæti í sínum riðli. Þeir léku svo um 7. sætið en töpuðu þeim leik þrátt fyrir hetjulega baráttu. Hvað sem öllum úrslitum líður voru þjálfarar strákanna hæstánægðir með mótið, strákarnir lögðu sig alla fram og áttu marga flotta spilakafla í öllum leikjum. Framkoma strákanna var líka til mikillar fyrirmyndar innan vallar sem utan og einnig foreldra og annarra stuðningsmanna. Mótinu fylgdi einnig mikið félagslíf, s.s. sundpartý, bíó og lokaball. Þó að strákarnir væru þreyttir, með snúna ökkla, marbletti, blöður og skrámur hér og þar í mótslok þá var upplidunin góð, allir skemmtu sér vel og fóru gulir og glaðir heim.

 

Úr 3. flokki kvenna fóru 22 stúlkur og spiluðu í tveimur liðum, en Erika Mjöll sem spilaði með 3.fl.kvk í fyrra kom inn sem lánsmaður í markið í öðru liðinu. Þar sem engir varamenn voru í liðunum tryggði þetta mikinn spilatíma fyrir þær allar og var allt annað en auðvelt. Einhverjar urðu fyrir smávegis hnjaski en skiluðu sér samt allar til baka. Stelpurnar stóðu sig allar með prýði, annað liðið lék til úrslita á mótinu en sá leikur tapaðist. Hitt liðið endaði í 5. sæti. Allar skemmtu þær sér vel innan vallar sem utan en farið var m.a. í sundlaugarpartý og á ball og var þetta stórgott mót í alla staði.

 

Eitt lið fór frá 4. fl.kvk, 17 stelpur í allt. Ein gat ekki spilað vegna meiðsla en fór samt með, liðsfélögunum til halds og trausts. Stelpurnar voru snöggar að koma sér fyrir í skólanum á miðvikudeginum og héldu svo þaðan í skrúðgöngu og setningu. Eftir það hélt þjálfari þeirra fund heima í stofu, þar sem hann meðal annars skipti þeim í 3-4 manna hópa og setti þeim fyrir eftirfarandi verkefni:

 

TOP-SECRET
Þetta skjal er eins og titillinn segir til um, ALGJÖRT TRÚNAÐARMÁL – ALGJÖRT

 

Hópurinn ykkar hefur fengið eftirfarandi verkefni til að leysa fyrir föstudagskvöld.

 

Þraut sem gefur 4 stig:
Þið þurfið að ná selfie af ykkur með einum dómara Rey-Cup, ein stelpa og dómari eitt stig. Mögulegt að ná FJÓRUM stigum, eitt stig fyrir hverja stelpu í hópnum.

 

Þraut sem gefur 2 stig:
Vera boltastelpa í einhverjum leik og ná að afhenda markmanni liðs boltann, ná atvikinu upp á videó og sýna

.

Þraut sem gefur 5 stig:
Dressa sig upp sem Ella og sem Gústi, klæðnaður makeup og hár skiptir öllu, videó 20 sek.

 

Þraut sem gefur 6 stig:
Ná selfie af sér og strák sem er ber að ofan, ein selfie á mann, getur gefið 6 stig samtals.

 

Þraut sem gefur 15 stig:
Taka viðtal við erlendan þjálfara/liðsstjóra, spyrja hann hvort hann viti eitthvað um Akranes og hvort hann hafi áhuga á starfi sem þjálfari á Akranesi. Enda á því að biðja um eitt gott ráð til að verða betri leikmaður.............. Þessa þraut þarf að vanda vel, undirbúa sig rosa vel, skrifa niður það sem maður ætlar að segja og tala HÁTT OG SKÝRT

 

Endilega vandið ykkur við þrautirnar og leggið ykkur fram eftir fremsta megni og munið .......

ÞETTA ER ALGJÖRT HERNAÐAR-LEYNDARMÁL

Þetta hópefli sló í gegn og hélt stelpunum uppteknum í þessum verkefnum á milli leikja alveg fram á föstudagskvöld, afraksturinn hins vegar er og verður leyndarmál!

Varðandi keppnina sjálfa höfðu stelpurnar stór markmið, enda höfðu sumar þeirra titil að verja frá fyrra ári. Mótið fór vel af stað og þær unnu fyrstu tvo leikina, næstu tveir leikir enduðu sem jafntefli en það var samt ennþá möguleiki að komast á Laugardalsvöllinn. Sigur í næsta leik hefði gefið möguleika á að spila til úrslita en því miður fór að síga á ógæfuhliðina og ekkert gekk upp í þessum leik og hann tapaðist. Á endanum spiluðu stelpurnar um 5. sæti og töpuðu þeim leik, sem var svekkjandi eftir svo góða byrjun.

Einn af hápunktum mótsins var svo BALLIÐ, stelpurnar fóru vel málaðar og voru alveg til í að dilla sér með strákunum á dansgólfinu, það gekk allavega misvel að ná þeim heim á tilsettum tíma wink

Ég held að stelpunum hafi þótt mjög gaman á mótinu og allt í kringum það, ég get alla vega mælt með þessu móti fyrir komandi ár.

Reycup á Sporthero: http://www.draumalidid.is/teams/180