Tap gegn Val í kvöld

27.05 2014 |

Skagastúlkur mættu Val í kvöld í 3. umferð Pepsideildar kvenna.  Lokatölur urðu 0:3 fyrir Val, eftir að staðan í hálfleik var 0:2.   Valsstúlkur fengu óskabyrjun þegar þær skoruðu strax á 2. mínútu eftir aukaspyrnu utan af velli sem Skagastúlkum tókst ekki að hreinsa frá.  Annað markið kom á 26, mín eftir mistök í vörninni sem Valsstúlkur nýttu sér til hins ítrasta.  Valsstúlkur voru betri aðilinn það sem eftir lifði fyrri hálfleiks án þess að skapa sér önnur afgerandi færi.  Skagastúlkur vörðust vel og beittu skyndisóknum.  Liðið náði að skapa sér nokkur hálffæri og eitt gott færi þegar Guðrún Karítas skaut rétt framhjá.  Síðari hálfleikur var nokkuð jafn en Valsstúlkur innsigluðu sigurinn á 57. mín með góðu marki.  Skagastúlkur áttu eitt mjög gott færi í hálfleiknum þegar Maren skaut yfir af markteig.  Enn er því bið á að fyrsta mark liðsins líti dagsins ljós í Pepsideildinni. 

Þrátt fyrir tapið voru góðir taktar í liðinu og stelpurnar staðráðnar að ná í stig í næsta leik, sem er útileikur gegn Selfossi næstkomandi mánudag.

Fjórir erlendir leikmenn léku með ÍA í dag og stóðu sig vel miðað við að vera nýkomnar til landsins og eru að aðlagast liðinu og íslenskum aðstæðum.  Þær eru allar nýútskrifaðar úr háskólum í Bandaríkjunum og eiga án efa eftir að láta meira að sér kveða og styrkja liðið í sumar.  Ofangreind mynd var tekin af stelpurnum eftir leikinn í kvöld, en þær heita Caitlin Updyke (markvörður) frá USA, Laken Duchar-Clark frá Englandi, Maddie Gregory frá USA og Maggie Neiswanger frá USA.  Við bjóðum stelpurnar velkomnar á Skagann í sumar.

Vert er að geta hins frábæra framtaks hjá Dýrfinnu Torfadóttur og fleirum að selja kaffi, kleinu og happdrættismiða í hálfleik gegn vægu verði.  Dýrfinna gaf fallegan grip í verðlaun og var hann afhentur heppnum vinningshafa í leikslok.  Mæltist þetta afaf vel fyrir hjá áhorfendum en um 100 manns keyptu sér kaffi í hálfleik.  

Einnig er vert að geta þess að rúmlega 200 áhorfendur mættu á leikinn í blíðskaparveðri og er þeim þakkaður frábær stuðningur.  Meira af þessu !

 

Sjá einnig umfjöllun á fótbolti.net http://fotbolti.net/game.php?action=view_article&id=1076  og viðtal við Magneu þjálfara http://fotbolti.net/news/27-05-2014/magnea-helvitis-vonbrigdi