0:1 tap gegn Selfossi

19.07 2014

Skagamenn mættu í gærkvöldi Selfossi á útivelli í fyrsta leik síðari umferðar 1. deildar karla.  Leiknum lyktaði með 1:0 sigri Selfyssinga í frekar bragðdaufum leik þar sem blautur völlur og mikil barátta einkenndi leikinn.  Eina mark leiksins skoruðu Selfyssingar á 46.mín með góðu skoti frá miðju vallarins eftir varnarmistök okkar manna.   

Fyrri hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu en lítið var um færi.  Það helsta markverða sem gerðist var að Darren átti skalla í þverslá eftir horn og Árni Snær varði frábærlega þegar leikmaður Selfoss slapp einn í gegnum miðja vörnina.  Skagamenn urðu fyrir áfalli á 39.mín þegar Andri Adolphs fékk þungt högg á mjöðmina og varð að fara af leikvelli.  Hjörtur Hjartar kom inná í stað hans og Gunnlaugur þjálfari breytti taktíkinni í 4-4-2.

Síðari hálfleikur var varla hafinn þegar Selfyssingurinn Ingi Rafn Ingibergsson komst inní sendingu á miðju vallarins og lét vaða á markið frá miðju vallarins.  Frábært skot sem flaug yfir Árna Snæ í markinu sem kom engum vörnum við.  Eftir þetta jókst sóknarþungi Skagamanna en það gekk erfiðlega að finna glufur á Selfossvörninni.  Selfyssingar beittu skyndisóknum og Árni Snær varði tvisvar frábærlega með úthlaupum þegar á þurfti að halda.  Teitur kom inn fyrir Sindra á 66.mín og Óli Valur kom inná fyrir Wentzel Steinar á 70.mín og áttu þeir ágæta innkomu í leikinn.  Skagamenn áttu 2 góð færi undir lok leiksins, fyrst Jón Björgvin á fjærstöng þar sem varnarmaður náði að henda sér fyrir skot hans og síðan Hjörtur sem hitti ekki boltann við fjærstöngina eftir horn.

Það vantaði oft herslumuninn í aðgerðum Skagamanna í gær og það varð liðinu að falli.  Við fundum ekki leiðina í mark andstæðinganna að þessu sinni.

Næsti leikur er heimaleikur gegn Grindavík fimmtudaginn 24. júlí og þá þurfa okkar menn að bæta sig til að ná þremur stigum úr þeim leik.

 

Sjá viðtal við Gunnlaug þjáfara á Fótbolti.net hér :  http://fotbolti.net/news/18-07-2014/gulli-jons-thetta-mark-er-af-odyrara-taginu

Til baka