Árgangur 1980 mætir brattur til leiks

10.11 2014

Nú styttist óðum í að flautað verði til leiks í Árgangamóti ÍA en eins og flestum er kunnugt um þá fer það fram laugardaginn 15. nóvember næstkomandi. Það var árgangur 1980 sem sigraði Árgangamót ÍA með glæsibrag í fyrra eftir hörku úrslitaleik gegn árgangi 1983. Yfirþjálfari núríkjandi meistara er Lúðvík Gunnarsson en hann er fjallbrattur fyrir komandi keppni en við settumst niður með Lúlla nú stuttu fyrir mót og fengum hann til þess að fara aðeins yfir gang mála með okkur:

Hvernig er standið á árgangi 1980, ríkjandi meisturum frá síðasta ári?
“Strax eftir síðasta mót var farið í að semja við lykilmenn liðsins og gekk það vel. Nú er hins vegar ljóst að einhverjir leikmenn verða frá vegna meiðsla fórum við um leið að leita að mönnum til að styrkja liðið. Það gekk vel og nú þegar höfum við bætt við okkur 4 leikmönnum. Þetta eru allt hágæða leikmenn en helst ber þó að nefna hörkutólið Gunnar Hafstein Ólafsson. Það er því alveg ljóst að við mætum klárir til leiks.”


Hafa staðið yfir stífar æfingar síðustu vikur?
“Því miður höfum við ekki náð að vera með sameinlega æfingu en við höfum verið með tveggja tíma símafundi þrisvar sinnum í viku síðan í byrjun september. Það hefur gengið mjög vel og eru allir með sitt hlutverk á hreinu. Við reiknum svo með að taka eina æfingu á föstudag þar sem við fínpússum spilið.”


Hver var lykillinn að sigri ykkar í mótinu sem fram fór fyrir ári síðan?
“Það voru klárlega X-factorarnir sem voru lykillinn að sigri okkar í fyrra. Það voru menn sem enginn bjóst við neinu frá. Þeir fengu að valsa um völlinn óáreittir og gerðu það með stæl...öllum að óvörum. Það er alveg ljóst að þessir menn verða í strangri gæslu í ár. Við ætlum engu að síður að halda í þetta “element of surprise” og munu nýju leikmennirnir leika lykilhlutverk þar.”


Engu liði hefur tekist að vinna árgangamótið tvö ár í röð. Hvernig meturðu möguleika ykkar fyrir komandi mót?
“Ég myndi segja að það væru svona 90% líkur á að við fögnum aftur sigri. Það minnkar vissulega möguleika okkar að menn eins og ég séu að glíma við meiðsli en ég á von á að nýju mennirnir fjórir fylli mitt skarð saman.”


Hverjir eru helstu veikleikar og styrkleikar árgangs 1980?
“Styrkleikarnir eru þeir að við vitum hvernig á að vinna. Við erum vel skipulagðir og þekkjum andstæðinga okkar betur en hvorn annan. Þá er leikgleði liðsins og samheldni eitthvað sem andstæðingar okkar mega ekki vanmeta. Veikleika liðsins gef ég ekki upp enda væri það glapræði svo stuttu fyrir mót.”


Hvaða árgang hræðistu mest í Árgangamóti ÍA?
“Ég hræðist '79 árganginn mest þrátt fyrir að þeir hafi dragbít eins og Svenna innan sinna raða. Eiríkur og Ísólfur eru algjörir lykilmenn í þessu liði og leggjum við allt kapp á að stoppa þá. Þá má búast við 68+”  árgangnum sterkum eftir að Siggi Jóns snéri heim. Hann er sannkallaður hvalreki fyrir það ágæta lið.”


Eitthvað að lokum?
“Ég vona að léttleikinn svífi yfir vötnum næsta laugardag og að menn hafi gaman af. Ég vonast til að sjá sem flesta á þessu frábæra móti og svo á Herrakvöldinu en er þetta frábær dagur.” sagði Lúlli Gunn þjálfari núríkjandi meistara í árgangi 1980 í skemmtilegu samtali við vefsíðu KFÍA.

Til baka