Í Höllinni um helgina

06.05 2016

Nú þegar þetta er skrifað stendur yfir í Höllinni æfingaleikur milli Kára og Breiðabliks. Þar er óhætt að segja að rigni mörkum! Leikurinn hófst kl. 20:00 svo það er enn hægt að stökkva af stað og ná seinni hálfleik.

 

Á morgun, laugardag kl. 11:00, taka A og B lið 3. flokks kvenna hjá ÍA á móti FH í Faxaflóamótinu. A-liðið er að leika sinn síðasta leik í mótinu í vetur og getur, með því að krækja í stig, lyft sér upp í 2. sæti riðilsins. Það verður þó ekkert hlaupið að því þar sem FH-stúlkur sitja í toppsætinu. Skagastúlkur stóðu samt sem áður vel í Hafnfirðingunum í fyrri leik liðanna en hann unnu FH 3-2 eftir að ÍA hafði verið 2-1 yfir í hálfleik. Staðan er nokkuð óljósari hjá B-liðinu vegna þess að í þeirra riðli hefur verið mikið um frestun leikja. Skagastúlkur sitja þar í botnsætinu fyrir leik morgundagsins með 4 stig eftir 5 leiki en andstæðingarnir sitja í 2. sæti með 11 stig  eftir 7 leiki. Það er því kjörið tækifæri til að minnka bilið.

 

Klukkan 14:00 taka strákarnir í 3. flokki ÍA við og leika bæði A- og B-liðið í Faxaflóamótinu, en andstæðingar þeirra eru einnig FH. Þarna hefur einnig verið nokkuð mikið um frestun leikja. A-liðið situr á botni síns riðils með 6 stig eftir 9 leiki en FH-ingar eru tveimur sætum ofar með 13 stig eftir 11 leiki. B-lið ÍA er í næstneðsta sæti síns riðils með 4 stig eftir 7 leiki en þar sitja FH-ingar á toppnum með 24 stig eftir 8 leiki.

 

Á sunnudaginn er það 5. flokkur karla sem sér um að láta boltann rúlla. Það eru lið C2 og D2 sem taka á móti HK, C-liðið kl. 10:00 og D-liðið kl. 10:50.  C-liðið er fyrir leikinn í 6. sæti síns riðils með 3 stig eftir 4 leiki á meðan HK eru í 3. sæti með 9 stig eftir 6 leiki. D-liðið er hins vegar á toppi síns riðils, með 13 stig eftir 6 leiki en HK-ingar eru þar í 6. sæti með 6 stig eftir jafnmarga leiki.

 

Góða helgi, og áfram ÍA

Til baka