ÍA endaði í 8. sæti deildarinnar eftir tap gegn Val

01.10 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í dag við Val á Valsvellinum í lokaumferð Pepsi-deildarinnar í ár. Að litlu var að keppa fyrir bæði lið enda um miðja deild. Baráttan var hinsvegar um markakóngstitilinn því Garðar Gunnlaugsson var efstur með 14 mörk og ætlaði ekki að gefa það eftir.

 

Níu uppaldir Skagamenn voru í byrjunarliðinu í dag og bekkurinn var eingöngu skipaður heimamönnum. Eru fá lið sem geta státað af slíkum árangri í uppeldisstarfinu. Leikurinn hófst þó af krafti af hálfu Vals og voru þeir líklegri að skora framan af leik en nýtt ekki færin sín.

 

Skagamenn voru þéttir til baka og byggðu á skyndisóknum sem sköpuðu nokkur hálffæri. Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum og ætlaði hvorugt liðið að gefa eftir í síðasta leik sumarsins. Staðan í hálfleik var 0-0 í leik þar sem Valur hafði verið líklegri en ÍA fengið sinn skerf af færum.

 

Seinni hálfleikur hófst svo svipað og sá fyrri. Valsmenn voru sterkari framan af og þeir skoruðu gott mark á 60. mínútu. Eftir það kom besti kafli Skagamanna þar sem þeir sköpuðu sér nokkur ákjósanleg færi en náðu ekki að nýta þau. Meðal annars ÍA vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Tryggva Hrafni Haraldssyni í vítateig Vals. Garðar Gunnlaugsson tók spyrnuna en lét verja frá sér.

 

Eftir það voru Valsarar sterkari aðilinn í leiknum og fengu færi til að klára leikinn en gerðu það ekki. Skagamenn fengu nokkur ágæt færi til að jafna metin en það gekk ekki upp í dag. Leikurinn endaði því með sigri Vals 1-0. Við getum þó fagnað því að Garðar Gunnlaugsson fékk gullskóinn í dag.


Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Hallur, Hafþór, Darren og Aron Ingi. Á miðjunni voru Þórður Þorsteinn, Guðmundur Böðvar, Steinar og Iain James. Í sókninni voru Stefán Teitur og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Arnór, Tryggvi Hrafn og Arnar Már.

 

Núna er tímabilinu formlega lokið og Skagamenn enda í áttunda sæti deildarinnar sem er ásættanlegur árangur miðað við byrjunina í sumar. Við viljum þakka stuðningsmönnum fyrir stuðninginn í sumar sem og leikmönnum fyrir þeirra framlag á tímabilinu. Sjáumst á næsta tímabili.

 

Áfram ÍA.

Til baka