ÍA er komið áfram í bikarnum eftir sigur á KV

25.05 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við KV í 32-liða úrslitum í Borgunarbikarnum. Skagamenn byrjuðu af krafti og strax á fjórðu mínútu skoraði Þórður Þorsteinn Þórðarson með góðu skoti eftir fyrirgjöf frá Martin Hummervoll. ÍA hélt svo áfram að sækja allan hálfleikinn og skapaði sér mikið af góðum marktækifærum en markvörður KV sá við öllum tilraunum okkar manna. KV átti svo frekar marklausar sóknir og ógnaði vörn ÍA sáralítið. Staðan í hálfleik var því 1-0.
 

Seinni hálfleikur hélt svo áfram eins og sá fyrri. Skagamenn voru mikið meira með boltann og fengu oft á tíðum dauðafæri en náðu á einhvern óskiljanlegan hátt aldrei að koma boltanum í netið. Þegar töluvert var liðið á leikinn var svo brotið á Jóni Vilhelm Ákasyni innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Hana tók Albert Hafsteinsson en markvörður KV varði spyrnuna og sýndi þar eina frábæra markvörsluna enn. KV náði svo sjaldan að ógna marki ÍA og sigurinn var í raun aldrei í hættu þó Skagamenn hafi ekki náð að bæta öðru marki við. Leikurinn endaði því 1-0 fyrir ÍA og sæti í 16-liða úrslitum tryggt. 
 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Gylfi Veigar, Andri Geir og Þórður Þorsteinn. Á miðjunni voru Martin, Iain og Arnór. Í sókninni voru Steinar, Ólafur Valur og Jón Vilhelm. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Garðar, Albert og Hallur.
 

Næsti leikur er svo gegn Víking R á Víkingsvelli sunnudaginn 29. maí kl. 19:15 í Pepsi-deildinni. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka