ÍA vann góðan sigur á Leikni R í baráttuleik

16.04 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í dag æfingaleik við Leikni R sem fram fór í Akraneshöll. Yngri leikmenn fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína enda farið að styttast í Íslandsmótið. Leikurinn var ágætlega spilaður og fengu bæði lið ágæt marktækifæri auk þess sem töluverð barátta var í leiknum. Skagamenn leiddu 1-0 í hálfleik þar sem Ólafur Valur Valdimarsson skoraði eftir góðan undirbúning frá Steinari Þorsteinssyni.
 

Í seinni hálfleik var ÍA svo sterkari aðilinn þar sem liðið skapaði sér mörg góð marktækifæri sem misfórust. Það var því gegn gangi leiksins þegar Leiknismenn skoruðu eftir að hafa fengið vítaspyrnu um miðjan hálfleikinn. Skagamenn héldu áfram að sækja og reyna að ná sigurmarki en erfiölega gekk að klára sóknirnar. Þegar komið var í uppbótartíma átti Darren Lough svo aukaspyrnu sem fór inn í vítateig Leiknis. Þar var Stefán Teitur Þórðarson rétt staðsettur og skoraði með góðu skoti. Þannig lauk leiknum með 2-1 sigri okkar manna í baráttuleik.
 

Framundan eru fleiri æfingaleikir en Íslandsmótið hefst svo formlega sunnudaginn 1. maí þegar ÍA fer í heimsókn til Vestmannaeyja og mætir ÍBV.

Til baka