Íslandsbanki styður knattspyrnuna á Akranesi

20.04 2015

Íslandsbanki og Knattspyrnufélag ÍA skrifuðu undir nýjan styrktarsamning í lok mars mánaðar. Íslandsbanki hefur verið einn stærsti styrktaraðili félagsins síðastliðin 6 ár. Áhersla samningsins er á barna- og unglingastarf KFÍA.

Magnús D. Brandsson útibússtjóri sagði eftir undirritun samningsins að bankinn væri mjög ánægður með samstarfið við KFÍA undanfarin ár. Íslandsbanki hefur lagt áherslu að vera þátttakandi í samfélaginu á Akranesi og því ánægjulegt að gera samning við stærsta íþróttafélagið á Akranesi.  Jafnframt þessum samning þá hefur bankinn styrkt ýmis íþrótta- og menningarmál í bæjarfélaginu. Óskaði Magnús öllum flokkum félagsins góðs gengis á keppnistímabilinu sem senn myndi hefjast.

Magnús Guðmundsson formaður KFÍA sagði að stuðningur Íslandsbanka við knattspyrnustarfið á Akranesi skipti miklu máli en alls eru iðkendur á vegum félagsins um 500 talsins. Fyrstu knattspyrnuleikir sumarsins eru á næsta leiti og þá þurfa Skagamenn að ná fram þeirri sigurgleði sem hefur einkennt knattspyrnumenn á Akranesi um árabil. Að hafa öflugt fyrirtæki eins og Íslandsbanka í forgrunni stuðningsaðila félagsins er ómetanleg sagði Magnús að lokum.

Á meðfylgjandi mynd eru í fremri röð Pálmi Haraldsson viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka, Magnús Guðmundsson formaður KFÍA, Magnús Daníel Brandsson útibússtjóri Íslandsbanka á Akranesi.  Í aftari röð eru Gunnlaugur Jónsson þjálfari meistaraflokks karla, Birta Stefánsdóttir fyrirliði meistaraflokks kvenna og Ármann Smári Björnsson fyrirliði meistaraflokks karla.

Til baka