Það er ÍA dagur í boltanum á morgun

06.08 2016

Við sláum eign okkar á sunnudaginn 7. ágúst, enda báðir meistaraflokkarnir í eldlínunni.

 

Fyrst ber að nefna að meistaraflokkur kvenna tekur á móti Þór/KA á Norðurálsvellinum kl. 15:00. Stelpurnar okkar unnu sinn fyrsta sigur fyrir skemmstu en leitin að fyrsta heimasigrinum heldur áfram. Þór/KA situr fyrir leikinn í 4. sæti deildarinnar, en allt getur gerst. Síðast þegar liðin mættust á Norðurálsvellinum var boðið upp á 5-marka-veislu þar sem sigurmarkið var því miður þeirra norðankvenna. Það væri tilvalið að snúa þeirri tölfræði við á morgun...

 

Eins og alltaf verður maður leiksins valin og fær að launum þetta flotta listaverk sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Listakonan að þessu sinni heitir Ronja Rut Ragney Hjartardóttir. Ronja er fædd 2002 og er hún sérlega efnilegur og hæfileikaríkur listamaður.

 

Strákarnir okkar í meistaraflokknum eiga einnig leik á morgun, en þeir bregða sér í Grafarvoginn kl. 19:15 og mæta Fjölni. Strákarnir hafa verið á góðri siglingu upp á síðkastið, þrátt fyrir tap gegn FH í síðasta leik, og nú er tækifæri til að sýna að þeir hafi ekki látið þann ósigur slá sig neitt útaf laginu. Fyrir leikinn situr Fjölnir í þriðja sæti deildarinnar en ÍA í því fimmta. Skagamenn geta þó minnkað muninn niður í eitt stig með sigri.

 

Við hvetjum alla Skagamenn til að fylkja liði á völlinn og styðja við liðin okkar á morgun, bæði stelpurnar og strákana.

 

Áfram ÍA

Til baka