Aðalfundur KFÍA. Bjart framundan !

20.02 2015

Aðalfundur Knattspyrnufélags ÍA var haldinn í gærkvöldi í hátíðarsalnum að Jaðarsbökkum.  Góð mæting var á fundinn og voru umræður fjörugar.  Magnús Guðmundsson, formaður félagsins, opnaði fundinn, og byrjaði á að minnast Helga Daníelssonar, heiðursfélaga KFÍA, sem lést á síðasta ári.  Magnús fór síðan yfir skýrslu stjórnar, Haraldur Ingólfsson, framkvæmdastjóri, fór yfir ársreikning félagsins 2014 og áætlun 2015.  Eftir að kosið hafði verið í stjórnir og ráð, kynnti Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður, stefnumótunarvinnu sem staðið hefur yfir allt síðasta ár.  Gunnlaugur Jónsson, þjálfari meistaraflokks karla, fór yfir stöðu liðsins og að lokum var Dr. Viðar Halldórsson, íþróttafélagsfræðingur, með mjög áhugaverða kynningu á aðkomu sinni að félaginu.

Rekstrarhagnaður félagsins á síðasta ári var 400 þús og því mikill viðsnúningur eftir 18 mkr tap árið 2013.  Heildarvelta félagsins var 147 mkr samanborið við 191 mkr árið áður.   Áætlað er að velta félagsins árið 2015 verði um 160 mkr.

Starf félagsins var blómlegt á síðasta ári.  Meistaraflokkur karla vann sér aftur sæti í efstu deild, meistaraflokkur kvenna féll úr efstu deild en þær eru staðráðnar í að vinna sig aftur upp á þessu ári.  Þrír Íslandsmeistaratitlar og einn bikarmeistaratitill komu í hús í yngri flokkunum.  3.fl. karla b-lið, 4.fl. kvenna b-lið og 5.fl. karla d-lið urðu öll Íslandsmeistarar og 2.fl. kvenna varð bikarmeistari með sameiginlegu liði Þróttar í Reykjavík.

Breytingar í stjórnum :

Magnús Guðmundsson var endurkjörinn formaður félagsins.  Með honum í stjórn voru kosnir Sævar Freyr Þráinsson, Bjarnheiður Hallsdóttir, Berglind Þráinsdóttir, Ólafur Ingi Guðmundsson og Örn Gunnarsson.  Til vara Dýrfinna Torfadóttir og Viktor Elvar Viktorsson.

Formaður Uppeldissviðs var kosinn Lárus Ársælsson og með honum Arnbjörg Stefánsdóttir, Jóhannes Hjálmar Smárason, Rannveig Lydia Benediktsdóttir og Rannveig Guðjónsdóttir.  Til vara Guðmundur Páll Jónsson og Kristrún Marteinsdóttir.

Í kjörnefnd voru kosin Gísli Gíslason, Jóhanna Hallsdóttir og Magnús Daníel Brandsson.

Í fagráð voru kosin Sturlaugur Sturlaugsson, Hrefna Ákadóttir og Karl Þórðarson

 

Mjög margt fróðlegt var í gangi í félaginu árið 2014 og mörg spennandi verkefni framundan og má sjá það nánar í skýrslu stjórnar í linknum hér að neðan:

https://sagan.kfia.is/assets/rsskýrsla_KFÍA_2014.pdf

Til baka