Áfram stelpur! - við bjóðum ykkur á leikinn

05.07 2016

Þessa dagana er óvenjulega mikill áhugi á fótbolta á Íslandi, innblásinn af frábærum árangri karlalandsliðsins á EM í Frakklandi. En það er ekki síður hægt að gleðjast yfir kvennalandsliðinu sem unnu nú í byrjun júní frábæran 4-0 sigur á Skotum í Skotlandi sem var svo fylgt eftir með 8-0 sigri á Makedóníu á Laugardalsvelli. Þar með tryggðu stelpurnar sér sæti á EM2017 í Hollandi, sitja í efsta sæti síns riðils með fullt hús stiga og hafa enn ekki fengið á sig mark eftir sex leiki.  Þessi flotti árangur hefur orðið til þess að liðið hefur hækkað sig um fjögur sæti á nýjum heimslista FIFA sem gefinn var út núna 24. Júní og sitja þar nú í 16. sæti.

 

Við erum líka stolt af stelpunum okkar hér hjá Knattspyrnufélagi ÍA, þrátt fyrir að liðið okkar sé enn í leit að fyrsta sigrinum í Pepsideild kvenna.  Þess vegna langar okkur  til að bjóða öllum konum frítt á næsta heimaleik hjá stelpunum sem verður gegn Val, föstudaginn 8. júlí kl. 18:00. Einnig verður boðið upp á fríar kaffiveitngar í hálfleik og pylsur og svala fyrir börnin.

 

Happdrættismiðar til styrktar stelpunum verða seldir í hálfleik á 500 kr. stk.

 

Við hvetjum allar konur til þess að fjölmenna á völlinn, af því að þið elskið fótbolta eða af því að einhver kona sem þú þekkir elskar fótbolta eða einhver kona sem þú gætir átt eftir að kynnast elskar fótbolta.  Ein kvöldstund er ekki stórt framlag í áttina að því að auka veg og virðingu kvennaknattspyrnunnar.

 

Uppfærð frétt:

Karlar eru að sjálfsögðu líka velkomnir á leikinn en þurfa að borga þessar venjulegu 1.500 kr. inn.

Það hefur nokkur fjöldi karlmanna haft samband við félagið og telja á sér brotið að fá ekki frítt á völlinn líka. Við höfum ákveðið að bregðast vel við því og bjóða því öllum sem vilja koma frítt á völlinn á föstudaginn, enda gleður sá mikli áhugi sem leiknum er sýndur okkur mjög. Það er því alveg kjörið fyrir alla fjölskylduna að gera sér glaðan dag og mæta saman á völlinn. Áfram ÍA!

Til baka