Andlát - Hörður Pálsson fyrrverandi formaður KFÍA

24.09 2015

Kveðja frá Knattspyrnufélagi ÍA

Hörður Pálsson bakarameistari og fyrrum formaður Knattspyrnufélags ÍA lést eftir stutta sjúkdómslegu 15.september síðastliðinn 82 ára að aldri.
Hörður fæddist á Skagaströnd og lærði bakaraiðn á Sauðárkróki, en kom til Akraness 1958 og tók þá við rekstri Alþýðubrauðgerðarinnar og rak hana til 1963.  Þá keypti hann reksturinn og breytti nafni þess í Harðarbakari og starfrækti það til 1998. Hörður var mikill félagsmálamaður og kom víða við í þeim efnum.  Hann var bindindismaður og starfaði sem slíkur í góðtemplarareglunni bæði á Sauðárkróki og Akranesi og sat lengi í stjórn Stórstúku Íslands. Hann var bæjarfulltrúi á Akranesi um árabil og lét flest framfaramál sig varða, einkum ýmis velferðarmál og þá sérstaklega í skóla og öldrunarmálum. Hann var sæmdur fálkaorðunni 2003. Eftirlifandi eiginkona hans er Inga Sigurðardóttir. Þau eiga fjögur börn og 13 barnabörn.
Hörður var mikill áhugamaður um knattspyrnu til hinstu stundar og næsta fastagestur á vellinum þegar Akranesliðið var að keppa. Hann var formaður Knattspyrnufélags ÍA 1988 – 1989. Á þeim tíma stóð yfir mikið uppbyggingarstarf í félaginu sem hafði verið stofnað 1986 og eins var mikil uppbygging íþróttamannvirkja í bænum. Þessi ár voru undanfari þeirra miklu sigurára sem fylgdu í kjölfarið á næstu árum á eftir.
Knattspyrnufélag ÍA þakkar Herði af heilum hug hans störf fyrir félagið og allan þann stuðning sem hann veitti því á löngum tíma. Eiginkonu hans, börnum þeirra og barnabörnum eru sendar hugheilar samúðarkveðjur

Til baka