Andlát: Helgi Hannesson

08.03 2015

Helgi Hannesson íþróttakennari er látinn, 76 ára að aldri.  Ævistarf Helga var íþróttakennsla og kenndi hann aðallega sund auk þess sem hann var forstöðumaður sundlauga á Akranesi, lengst af í Bjarnalaug. Helgi ólst upp á Akranesi og voru foreldrar hans þau Herdís Ólafsdóttir verkalýðsfrömuður og Hannes Guðmundsson verkamaður. Helgi var fljótt mikill áhugamaður um knattspyrnu og lék hann með yngri flokkunum á Akranesi og síðan  í Akranesliðinu samfellt frá 1956 til 1962 er hann hóf nám við Íþróttakennaraskólann og síðan eftir að námi lauk frá 1965 og með hléum allt fram til 1972, alls 138 leiki.

 

Hann varð Íslandsmeistari 1957, 1958, 1960 og 1970 og lék fyrsta B. landsleik Íslendinga gegn Færeyjum 1959. Helgi var harðskeyttur varnarmaður bæði ósérhlífinn og sterkur og með leikreyndari leikmönnum liðsins á sínum tíma. Hann þjálfaði Akranesliðið 1967 og kom auk þess oft að þjálfun liðsins á öðrum tímabilum.
 

Knattspyrnufélag ÍA þakkar Helga mikilsvert framlag hans til knattspyrnunnar á Akranesi og sendir eftirlifandi konu hans Valdísi Einarsdóttir og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Til baka