Andlát: Kjartan Trausti Sigurðsson

13.04 2015

Kjartan Trausti Sigurðsson okkar trausti félagi og fyrrum leikmaður Akanesliðsins er látinn eftir stutt en snarpt veikindastríð. Kjartan Trausti var fæddur á Akranesi sama árið og foreldrar hans fluttu þangað 1939. Hann tók virkan þátt í félagslífi á Akranesi einkum  íþrótta- og skátastarfi og var einnig öflugur í starfi Leikfélags Akraness. Hann bjó á Akranesi til 1965 og flutti þá til Reykjavíkur og var m.a. framkvæmdastjóri KSÍ um skeið. Starfsvettvangur hans um þrjátíu ára skeið hefur verið fararstjórn í ferðum Íslendinga víðs vegar um heiminn. Síðustu árin kenndi hann einnig við Ferðamálaskóla Íslands.

 

Kjartan Trausti var leikmaður Akranesliðsins í kringum 1960 og var m.a. í leikmannahóp liðsins sem varð Íslandsmeistari 1960. Hann var alla tíð öflugur stuðningsmaður knattspyrnunnar á Akranesi og hafði miklar taugar til gamla heimabæjarins og sýndi það á í verki á margvíslegan hátt.

 

Knattspyrnufélag ÍA minnist góðs félaga og vottar aðstandendum hans dýpstu samúð.

Til baka