Ármann Smári Björnsson fékk háttvísiverðlaun Borgunar
06.10 2015Ármann Smári Björnsson, varnarmaður ÍA, fékk um helgina háttvísiverðlaun Borgunar en þá viðurkenningu fær leikmaður sem sýnir af sér heiðarlega framkomu á velli. Sérstök háttvísinefnd KSÍ stendur fyrir valinu og er Ármann Smári einstaklega vel að því kominn enda fékk hann engin spjöld á nýafstöðnu tímabili.
Segja má að þessi viðurkenning Ármanns Smára sé í beinu áframhaldi af viðurkenningu sem KFÍA fékk á ársþingi KSÍ í febrúar sl. en þá fékk félagið Drago-styttuna svokölluðu fyrir prúðmannlegan leik í 1. deild karla í fyrra. Drago-stytturnar hljóta þau lið í efstu tveimur deildum karla, sem sýna prúðmannlegastan leik miðað við gul og rauð spjöld dómara.
KFÍA vill óska Ármanni Smára Björnssyni innilega til hamingju með þessa viðurkenningu sem og frammistöðuna í ár.