Arsenij ánægður á Skaganum

31.03 2015

Skagamenn sömdu fyrr í vetur við litháeska framherjann Arsenij Buinickij en hann gerði samning við Skagaliðið út þetta tímabil. Arsenij sem er 29 ára gamall lék í fyrra með liði KA í 1. deild karla og skoraði þar 11 mörk í 23 leikjum. Framherjinn átti mjög góðan leik um nýliðna helgi gegn liði Fjarðabyggðar þar sem hann skoraði þrennu og er hann þá kominn með samtals fjögur mörk í Lengjubikarnum.


Við heyrðum í framherjanum af þessum tilefni og byrjuðum á að spyrja hann hvernig honum gengi að aðlagast lífinu á Skaganum: „Mér líður vel á Skaganum. Það hafa allir verið boðnir og búnir að hjálpa mér við að komast inn í hlutina. Það hjálpar auðvitað að hafa búið á Íslandi í fyrra þegar ég var á Akureyri og lék með KA. Við Marko Andelkovic búum saman núna tímabundið en við þekkjumst þar sem við lékum saman fyrir nokkrum árum með liði FK Ekranas. Við mættum einmitt liði FH í Evrópukeppninni það árið. Við kunnum vel við okkur á Skaganum og getum ekki kvartað yfir neinu“


Arsenij sagði að það hafi ekki verið erfið ákvörðun er hann ákvað að ganga í raðir þeirra gulklæddu: „Nei ég heyrði fyrst frá klúbbnum undir lok síðasta árs og svo tók ég nokkrar vikur að melta það en eftir það var þetta ekki spurning. Skaginn er flottur klúbbur með góða þjálfara og fína umgjörð.“


Litháinn hefur mest allan sinn feril leikið framarlega á vellinum en hvaða stöðu kýs hann helst að spila: „Mér er svo sem alveg sama hvar á vellinum ég spila en ég hef oftast leyst stöðuna í holunni fyrir aftan framherjann. Síðan hef ég líka leikið fremstur og einnig á köntunum. Annars er mér nokkuð sama um hvar ég spila, ég tek bara því sem kemur og reyni ávallt að gera mitt besta.“


Arsenij er bjartsýnn á gengi Skagamanna í sumar: „Ég hef fína tilfinningu fyrir tímabilinu hjá okkur. Við erum með fínan hóp leikmanna sem á góðum degi á að geta náð góðum úrslitum gegn hvaða liði sem er í efstu deild. En það er stutt á milli og við þurfum held ég að gæta vel að því að mæta hárrétt stemmdir í alla leiki. Það sýndi sig vel gegn Val um daginn þegar við vorum værukærir í fyrri hálfleik og allt í einu lentir 3-0 undir. Að sama skapi höfum við náð fínum leikjum eins og gegn Stjörnunni og fleiri liðum þegar allir virðast klárir í verkefnið frá fyrstu mínútu.“


Arsenij sem er 29 ára gamall á unnustu sem er að klára háskólanám núna í vor úti í Litháen. Hann vonast þó til þess að hún komi og heimsæki sig til Íslands í sumar. „Hún einfaldlega verður að koma, hún komst ekki til mín í fyrra en stefnir á að koma núna. Það er fullt af merkilegum stöðum til að skoða á Íslandi en við Marko notum einmitt talsvert af okkar frítíma í að taka myndir af fallegum stöðum. Það má segja að það sé áhugamál okkar beggja.“


Núna þegar einungis rétt um fimm vikur eru í fyrsta leik í Pepsi-deildinni þá spurðum við framherjann að því að lokum hvernig formið væri: „Það er allt að koma hjá mér og kemur með hverjum leiknum. Ég er fullur tilhlökkunar fyrir komandi tímabili og verð klár í slaginn í byrjun maí þegar lið Íslandsmeistaranna kemur í heimsókn á Skagann.“ sagði Arsenij að lokum í samtali við vefsíðu KFÍA.

Til baka