Blikar lögðu Skagann

27.05 2015

Skagamenn mættu í gærkvöld liði Blika á Norðurálsvellinum og lyktaði leiknum með sanngjörnum 0-1 sigri gestanna úr Kópavogi.


Nokkurt jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik sem var þó fremur bragðdaufur en lítið var um opin marktækifæri. Skagamenn spiluðu sterkan varnarleik með fimm manna varnarlínu og tókst vel að loka á sóknarspil gestanna. Skagaliðið komst nokkrum sinnum í ágætis stöður ofarlega á vellinum en gekk afleitlega að búa sér til alvöru markfæri og varð því markalaust í hálfleik.


Blikarnir voru síðan miklu sterkara liðið í seinni hálfleik og uppskáru sigurmarkið þegar um 67 mín voru liðnar af leiknum. Náðu gestirnir fínni sókn upp hægri vænginn sem endaði með fyrirgjöf fyrir markið sem Arnþór Ari Atlason afgreiddi glæsilega í markið hjá heimamönnum.


Skagaliðið reyndi hvað það gat að jafna metin án árangurs og eins og áður gekk alfleitlega að búa til markverðar sóknir. Leikurinn fjaraði út og átti Blikar mun hættulegri færi til þess að bæta við mörkum. Niðurstaðan var því sanngjarn 0-1 sigur gestanna úr Kópavogi. Albert Hafsteinsson var kosinn maður leiksins af stuðningsmönnum IA og fékk hann listaverk af launum eftir Nínu Áslaugu Stefánsdóttur.


Eftir fína spilamennsku Skagamanna í fyrstu þremur leikjum tímabilsins þá hafa tveir síðustu leikir liðsins einfaldlega verið slakir. Stákarnir geta mikið betur, það vita þeir og nú er lag að rífa sig upp fyrir næsta leik sem verður gegn Fjölni á sunnudaginn kemur í Grafarvoginum.

Til baka