Dýrmætt stig í Garðabænum

18.07 2015

Skagamenn heimsóttu Stjörnumenn í Garðabæinn í dag og endaði leikurinn með jafntefli 1-1. Stjörnumenn hófu leikinn af krafti og áttu Skagamenn í vök að verjast á löngum köflum þó við fengum gott færi snemma leiks en þá átti Ármann Smári Björnsson góðan skalla sem markvörður Stjörnunnar varði vel. Heimamenn áttu samt í erfiðleikum með að skapa sér færi gegn sterki vörn ÍA en á 38. mínútu skoruðu Stjörnumenn fallegt mark. Okkar menn sköpuðu sér fá færi en Jón Vilhelm Ákason átti ágæta tilraun undir lok hálfleiksins sem misfórst. Staðan var því 1-0 í hálfleik.

 

Skagamenn komust svo hægt og rólega inn í leikinn þó Stjörnumenn væru öflugri. Við sköpum okkur ágæt færi en á 63. mínútu misstum við Albert Hafsteinsson af leikvelli þegar hann fékk sitt annað gula spjald og þar með brottvísun. Stjörnumenn fá svo góð færi en á 76. mínútu kemur Jón Vilhelm Ákason með frábæra stungusendingu innfyrir vörn Stjörnunnar þar sem Garðar Gunnlaugsson er einn og óvaldaður og skorar með góðu skoti í fjærhornið, nýkominn inn á sem varamaður. Skömmu síðar fá heimamenn vítaspyrnu sem þeir misnota og leikurinn fjaraði hægt og rólega út í framhaldinu.

 

Leikurinn endar því með 1-1 jafntefli í leik þar sem Stjörnumenn voru sterkari aðilinn og fengu mun betri færi. Skagamenn spiluðu öflugan varnarleik þar sem Ármann Smári Björnsson og Árni Snær Ólafsson voru mjög góðir. Sóknarleikurinn var ekki alveg að ganga upp en innkoma Garðars Gunnlaugssonar gerði gæfumuninn og mark hans reyndist dýrmætt. Spilamennska liðsins heldur áfram að vera með ágætum og stigið í dag er dýrmætt í fallbaráttunni.
 

Framundan er mikilvægur leikur gegn Leiknismönnum á Norðurálsvelli sunnudaginn 26. júlí kl. 19:15. Hvetjum við Skagamenn til að fjölmenna á þann leik.

Til baka