„Er sannfærð um að stigin fara að detta inn í næstu umferðum“ segir Laken D. Clark leikmaður m.fl kv

19.06 2014

Hið unga og efnilega kvennalið ÍA fékk góðan liðsstyrk í vor þegar fjórir erlendir leikmenn gengu í raðir félagsins. Þetta eru leikmennirnir Laken Duchar-Clark, Caitlin Updyke, Madison Gregory og Margaret Neiswanger.

Þær hafa síðan um miðjan maí mánuð leikið með félaginu og staðið sig vel. Við hjá heimasíðu ÍA munum á næstu dögum birta stutt viðtöl við stelpurnar með það að markmiði að kynna þær fyrir stuðningsmönnum ÍA en allar bera þær bæjarbúum söguna vel og líkar lífið vel á Skaganum. Við byrjuðum á að heyra í þeirri sem fyrst kom til landsins en það er enski leikmaðurinn Laken D. Clark en við byrjuðum á að spyrja hana hvernig henni hafi orðið við þegar henni bauðst til þess að fara til Íslands að leika knattspyrnu.

 

„Ég verð að viðurkenna að í fyrstu var ég auðvitað svolítið hissa en á sama tíma mjög spennt. Ég vissi ekki mikið um landið ykkar áður en ég kom en vissi að hér væri starfrækt öflug kvennadeild og einnig að þið hefðuð á að skipa öflugi kvennalandsliði sem hefði náð góðum árangri undanfarin ár. Þetta var því aldrei spurning í mínum huga.“

 

Laken er uppalin á Englandi, nánar til tekið í litlum bæ sem kallast Braintree sem staðsettur er suður af London. Fyrir fjórum árum síðan fór hún í háskóla í Bandaríkjunum þar sem hún lék með Davenport háskólanum og í Michigan ríki samhliða því að leggja stund á nám í Íþróttastjórnun (sports management). Laken sem er 23 ára gömul er ánægð með dvölina hingað til á Skaganum:

 

„Þetta hefur verið virkilega ánægjulegur tími hingað til. Við stúlkurnar dveljum á gistiheimilinu Birtu þar sem við hjálpum einmitt til við þjónustuna yfir daginn og förum svo yfirleitt á æfingar seinni part dags. Bæjarbúar hér á Akranesi eru afar vinalegir og allir sem snúa að klúbbnum, bæði starfsfólk á skrifstofu, þjálfarar og liðsfélagar hafa hjálpað okkur mikið við að aðlagast nýjum aðstæðum.“

 

Aðspurð með gengi kvennaliðs ÍA hingað til sagði Laken: „Mér hefur fundist hafa verið mikill stígandi í okkar leik undanfarið þó svo að stigin hafi ekki skilað sér ennþá. En það styttist. Við höfum staðið vel í öllum okkar andstæðingum og leikið hörkuleiki en það hefur bara vantað aðeins upp á að klára færin okkar betur. Ég er sannfærð um að það komi hjá okkur í næstu leikjum.“

 

Laken hefur mest allan sinn feril leikið sem hafsent en hún hefur einmitt leyst þá stöðu í Skagaliðinu nú í vor. Leikmaðurinn lýtur björtum augum á framhaldið: „Já ég hlakka til þess að eyða sumrinu hér á Akranesi. Landið ykkar er virkilega fallegt og ég sé bara fram á skemmtilega tíma hér í sumar. Við höfum á að skipa ungu og virkilega efnilegu liði og ég er sannfærð um að stigin fara að detta inn hjá okkur í næstu umferðum“ sagði Laken að lokum í stuttu samtali við vefsíðu KFÍA.

Til baka