“Erum sannarlega á réttri leið”

16.12 2014

Garðar Gunnlaugsson, sem var einn af lykilmönnunum í því að koma Skamönnum í deild þeirra bestu á nýjan leik í sumar er ánægður með það sem komið er af undirbúningstímabilinu. 

"Ungu strákarnir hafa fengið tækifæri í þeim æfingaleikjum sem við höfum leikið nú fyrri hluta vetrar. Þeir fá dýrmæta reynslu með þessu. Við höfum leikið fjóra leiki og sigrað í tveimur þeirra og tapað tveimur. En úrslitin skipta ekki alltaf höfuðmáli í þessum leikjum. Það er verið að gefa mönnum tækifæri, finna bestu stöðurnar og útfæra leikkerfi." sagði Garðar.

"Mér líst mjög vel á það sem þjálfararnir eru að leggja upp með og er fullur bjartsýni. Við erum með efnilega stráka, auk þess sem liðið verður væntanlega styrkt enn frekar fyrir átökin næsta vor. Þá á ráðning Sigurðar Jónssonar sem þjálfara 2.flokks karla örugglega eftir að skila efnilegum strákum upp í meistaraflokk. Siggi er hokinn af reynslu sem þjálfari. Við erum sannarlega á réttri leið" sagði Garðar.

Garðar sagði að nú væru leikmenn komnir í jólafrí og næsta verkefni væri fotbolti.net æfingamótið og væri fyrsti leikurinn þann 10.janúar. n.k.

Til baka