Fótboltahelgin á Skaganum

04.03 2016

Akraneshöllin okkar er vel nýtt til knattspyrnu þessa helgi eins og raunar allar helgar.

 

Í kvöld, föstudag, kl. 20:00 mætast BÍ/Bolungarvík og KV í Lengjubikar karla.

 

Meistaraflokkur karla hjá ÍA hefja svo leikinn á morgun kl. 11:00, en þá taka strákarnir okkar á móti Haukum, einnig í Lengjubikarnum. Skaginn vann afar sannfærandi sigur í síðasta leik, sem var eini leikur okkar í mótinu til þessa, en Haukar eiga að baki eitt jafntefli og eitt tap. Í beinu framhaldi, eða kl. 13:00, tekur Kári á móti ÍH í fyrsta leik tímabilsins í sömu keppni. Dagurinn endar svo á því að 3. flokkur kvenna tekur á móti HK kl. 17:00. Skagastelpur sitja á toppi riðilsins með 9 stig eftir 4 leiki en HK í því neðsta með 3 stig, en reyndar einum leik minna. 

 

Sunnudagurinn hefst á tveiur leikjum hjá 4. flokki kvenna í Faxaflóamóti, kl. 11:00 er það A-liðið en kl. 12:30  er það 8 manna bolti. Breiðablik er andstæðingurinn í báðum þessum leikjum. Hjá A-liðunum eru þetta efstu tvö liðin sem mætast og því von á hörkuviðureign. Breiðablik eru einnig á toppnum í 8 manna boltanum en Skagastelpur eru án stiga. Það má því segja að gengi liðanna sé ólíkt en við erum þó handviss um að í báðum tilfellum öðlast stelpurnar góða reynslu og skemmta sér hið besta. Klukkan 14:00 sama dag mætast Víðir og BÍ/Bolungarvík í Lengjubikarnum og síðasti leikur dagsins er kl. 16:00 þegar 2. flokkur kvenna hjá ÍA fá FH stelpur í heimsókn í Faxaflóamótinu. Okkar stelpur hafa átt undir högg að sækja, eru aðeins með 3 stig eftir 6 leiki en FH hefur 7 stig eftir 5 leiki. 

 

Gleðilega boltahelgi!

#ÁframÍA

Til baka