Fótboltinn á Skaganum næstu vikuna

16.09 2016

Nú er farið að síga á seinni hlutann af fótboltasumrinu 2016 en þetta er þó aldeilis ekki búið.

 

Í dag, föstudaginn 16. september, tekur 2. flokkur ÍA/Kára á móti KA/Reyni/Dalvík. Leikur A-liðanna fer fram kl. 17:00.  Það er mikið undir fyrir Skagastrákana í þessum leik en þeir eru í harðri baráttu við Breiðablik um toppsætið, þurfa sigur til að halda þeim slag gangandi og það helst stóran. Leikur B-liðanna fer svo fram kl. 18:45. Þar eru okkar strákar í baráttu við Fjölni og Stjörnuna/KFG um miðja deild svo öll stig geta verið mikilvæg, því þeir ætla sér að sjálfsögðu að enda sumarið eins ofarlega og mögulegt er.

 

Laugardagurinn 17. september byrjar með því að B-lið 4. flokks karla tekur á móti Fylki í úrslitakeppninni. Leikurinn fer fram kl. 11:00. ÍA strákar eru fyrir leikinn með 1 stig eftir 2 leiki og í 3. sæti en gætu mögulega náð upp í 2. sætið með stórum sigri, en þetta er síðasti leikurinn í úrslitakeppni B-liða.

 

Strax að loknum leik B-liðanna mætast C-lið sömu félaga í sínum fyrsta leik í úrslitakeppninni þetta árið, eða kl. 12:30.

 

Þetta eru þó ekki einu leikir laugardagsins hér á Skaganum en Kári tekur á móti toppliði Tindastóls í 3. deildinni í Akraneshöllinni kl. 13:00. Þetta er lokaumferð deildarinnar og Kári situr fyrir leikinn í 3. sæti deildarinnar og þyrfti helst á sigri að halda til að eiga ekki á hættu að tapa sætinu til Einherja. Það er þó ljóst að það er ekkert gefið í því þar sem Skagfirðingarnir hafa verið afar sterkir í sumar og unnið 16 af 17 leikjum sínum í deildinni.

 

Síðasti leikurinn sem er á dagskrá hér á Skaganum næstu vikuna er lokaleikur 4. flokks karla í úrslitakeppni C-liða, en hann verður miðvikudaginn 21. september kl. 17:00 þegar Skagastrákar taka á móti FH.

Til baka