Góður sigur á Val í baráttuleik

26.09 2015

Skagamenn fengu Valsmenn í heimsókn á Norðurálsvöllinn í dag sem endaði með góðum 1-0 sigri. Leikurinn var spilaður við erfiðar aðstæður þar sem töluverður vindur var á annað markið og það hafði mikið áhrif á leikmenn. ÍA spilaði undan vindinum í fyrri hálfleik en gekk illa að skapa sér færi. Valsmenn beittu skyndisóknum og spiluðu boltanum vel á milli sín á jörðinni og fengu nokkur hálffæri. Þeir fengu sitt besta færi snemma í leiknum þegar Gylfi Veigar Gylfason bjargaði á marklínu eftir skot frá sóknarmanni Vals.


Lítið var í gangi í fyrri hálfleik uns á 26. mínútu þegar Arnar Már Guðjónsson gerði sér lítið fyrir og skaut boltanum frá miðlínunni í átt að marki Vals. Markvörður gestanna var of framarlega og vindurinn tryggði svo að boltinn endaði í markinu af 50 metra færi. Frábært mark og Skagamenn komnir yfir. Rétt fyrir hálfleik skoraði Garðar Gunnlaugsson svo fallegt mark en markið var dæmt af vegna rangstöðu sem heimamönnum þótti hæpinn dómur í meira lagi. En staðan í hálfleik var 1-0 fyrir ÍA.

 

Í seinni hálfleik léku Valsmenn með vindinn í bakið og voru með undirtökin framan af leik en vörnin með Ármann Smára Björnsson og Gylfa Veigar Gylfason í fararbroddi gáfu engin færi á sér. Gestirnir beittu aðallega langskotum sem náðu sjaldan að ógna marki ÍA. Skagamenn beittu eitruðum skyndisóknum og áttu nokkrar góðar sóknir sem ekkert varð úr. Á 82. mínútu átti Tryggvi Hrafn Haraldsson góða rispu upp völlinn og náði skoti sem fór í stöng. Brotið var á sóknarmanni ÍA í framhaldinu og vítaspyrna dæmd. Hana tók Garðar Gunnlaugsson en skot hans fór í þverslánna. Valsmenn reyndu að færa sig framar á völlinn undir lokin en okkar menn gáfu engin færi á sér og skiluðu góðum 1-0 heimasigri.

 

Leikurinn endaði því með mikilvægum 1-0 sigri ÍA og liðið er komið í sjöunda sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina. Þetta var mikill baráttuleikur og vinnusigur við erfiðar aðstæður. Varnarleikurinn var traustur og fjórði leikurinn í röð sem liðið heldur hreinu. Allir leikmenn liðsins börðust og skiluðu þremur stigum í hús. Síðasti leikur tímabilsins er kl. 14 næsta laugardag gegn ÍBV í Vestmannaeyjum. Við hvetjum þá sem eiga kost á því að mæta þar og styðja strákana okkar í síðasta leiknum.

 

Loks viljum við þakka stuðningsmönnum fyrir mætinguna í dag og stuðninginn í sumar á heimaleikjum ÍA. Hann hefur verið góður og dýrmætur fyrir okkar menn í erfiðum leikjum.

Til baka