Frábær sigur gegn KR á útivelli í kvöld

23.06 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við KR á Alvogenvellinum í áttundu umferð Pepsi-deildarinnar. Um mikilvægan leik var að ræða fyrir bæði lið enda í fallbaráttu og þurftu þau á þremur stigum að halda. KR byrjaði af krafti og sköpuðu nokkur ágæt færi sem þeir náðu ekki að klára. Skagamenn komust meira í takt við leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn og fengu góð færi sem nýttust ekki. Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum og ætlaði hvorugt liðið að gefa eftir. Staðan í hálfleik var markalaus.
 

Seinni hálfleikur hófst svo svipað og fyrri hálfleikur endaði. Leikmenn beggja liða börðust af krafti en KR skoraði gott mark eftir átta mínútna leik. Skagamenn sóttu töluvert og sköpuðu sér færi en tókst ekki að jafna metin. Bæði lið héldu svo áfram að berjast og sækja eftir því sem leið á leikinn. ÍA fékk vítaspyrnu á 83. mínútu þegar boltinn fór í hendi varnarmanns KR. Garðar Gunnlaugsson tók spyrnuna og skoraði af öryggi.

 

Eftir þetta fjaraði leikurinn hægt og rólega út og allt útlit var fyrir jafntefli en þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Garðar sigurmarkið með frábæru skoti af 30 metra færi þegar hann vippaði boltanum yfir markvörð KR, sem var illa staðsettur. Skömmu síðar var flautað af og frábær 1-2 útisigur á KR staðreynd. Þetta var fyrsti sigurleikur á KR á útivelli í 10 ár og þrjú kærkomin stig. 
 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Ármann Smári, Arnór Snær og Hallur. Á miðjunni voru Iain James, Arnar Már, Ólafur Valur og Ásgeir. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Þórður Þorsteinn, Jón Vilhelm og Albert.
 

Næsti leikur er svo gegn Stjörnunni á Norðurálsvelli miðvikudaginn 29. júní kl. 20:00 í Pepsi-deildinni. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka