Fréttir af U19 kvk í Sviss

21.09 2015

Eins og við höfum sagt frá hér síðustu daga átti ÍA tvo fulltrúa í leikmannahópi U19 ára landsliðs kvenna sem keppti í undanriðli fyrir EM2016 í Sviss, þær Anítu Sól Ágústsdóttur og Bryndísi Rún Þórólfsdóttur.


Gengi liðsins var svona upp og ofan, stórsigur vannst á Georgíu í fyrsta leik, 6-1. Í næsta leik tapaði liðið nokkuð óvænt fyrir Grikkjum 2-1. Síðustu leikirnir fóru svo fram í gær þar sem íslensku stelpurnar mættu gestgjöfunum í svissneska liðinu og tapaðist sá leikur 2-0. Það má segja að þau úrslit hafi verið betri en lokatölur gefa til kynna þegar horft er til þess að Sviss van hin liðin í riðlinum 7-0 og 23-0. Með þessum úrslitum endaði Ísland í 3. sæti riðilsins og tókst því ekki að tryggja sér farseðilinn í lokakeppni EM að þessu sinni.


Okkar konur náðu sér þarna í dýrmæta reynslu, Aníta Sól spilaði hverja einustu mínútu á mótinu og Bryndís Rún kom inn á sem varamaður í fyrri tveimur leikjunum og lék allar 90 mínúturnar í þeim þriðja.  Bryndís Rún skoraði líka eitt marka liðsins í sigurleiknum. Við erum stolt af stelpunum og höfum fulla trú á því að þær eigi eftir að láta að sér kveða í framtíðinni, bæði í gulu ÍA treyjunum og bláum fyrir Ísland.

Til baka