Garðar með þrennu í frábærum sigri á Stjörnunni

29.06 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Stjörnuna á Norðurálsvellinum í níundu umferð Pepsi-deildarinnar. Um mikilvægan leik var að ræða fyrir Skagamenn enda liðið í fallbaráttu og var mikil þörf fyrir þrjú stig. Stjarnan byrjaði leikinn þó af krafti og skoruðu þeir strax eftir fimm mínútna leik. ÍA kom þó strax til baka og fékk liðið réttilega vítaspyrnu skömmu síðar þegar varnarmaður Stjörnunnar fékk boltann í hendina. Garðar Gunnlaugsson tók spyrnuna og skoraði af öryggi. Eftir mörkin sköpuðu bæði lið sér nokkur færi sem nýttust ekki þrátt fyrir góðar tilraunir. Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum og ætlaði hvorugt liðið að gefa eftir. Staðan í hálfleik var því 1-1.
 

Seinni hálfleikur hófst svo svipað og fyrri hálfleikur endaði. Leikmenn beggja liða börðust af krafti en Stjarnan skoraði gott mark á 56. mínútu. Skagamenn sóttu töluvert og það skilaði jöfnunarmarki á 63. mínútu þegar Ármann Smári Björnsson átti skalla í stöng eftir hornspyrnu og Garðar Gunnlaugsson náði frákastinu og skoraði í opið markið. Þremur mínútum síðar átti ÍA frábæra sókn þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson lék boltanum upp vinstri kantinn og gaf fallega stungusendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar á Darren Lough sem kom á fullu. Hann náði föstu skoti í fjærhornið og skoraði fallegt mark.

 

Stjörnumenn sóttu af krafti til að jafna metin en Skagamenn bættu fjórða markinu við þegar Ólafur Valur Valdimarsson átti frábæra sendingu yfir á hægri kantinn þar sem Garðar Gunnlaugsson fékk boltann og hamraði hann í netið. Frábært mark og fyrsta þrenna Skagamanns í efstu deild karla í 12 ár. Bæði lið fengu svo ágæt færi í hálfleiknum en ekki náðist að nýta þau. Eftir þetta fjaraði leikurinn hægt og rólega út og Skagamenn sigldu heim virkilega mikilvægum heimasigri 4-2. 


Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Ármann Smári, Arnór Snær og Hallur. Á miðjunni voru Iain James, Arnar Már, Ólafur Valur og Ásgeir. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Þórður Þorsteinn, Jón Vilhelm og Steinar.

 

Næsti leikur er svo gegn Breiðablik á Kópavogsvelli sunnudaginn 10. júlí kl. 16:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka