Góður árangur yngri flokka ÍA í sumar

03.08 2015

Árangur ÍA á Íslandsmóti í yngri flokkum hefur verið með ágætum það sem af er sumri.

 

2. fl karla
A-liðinu hefur gengið ágætlega og er með 14 stig um miðjan A-riðil eftir 10 leiki. Keppnin þar er mjög jöfn og mörg góð lið að keppa. Strákarnir eru svo komnir í undanúrslit bikarsins fjórða árið í röð. B-liðinu gengur einnig vel og er með 11 stig eftir sjö leiki.
 

2. fl kvenna
Liðinu hefur gengið vel og er komið með 9 stig í B-riðli eftir fimm leiki og er í harðri toppbaráttu. Stelpurnar hafa lagt hart að sér og eru væntingar um að þær komist aftur upp í A-riðil í haust. Stelpurnar eru svo komnar í undanúrslit í bikarnum og stefna á að verja bikarmeistaratitilinn sem þær unnu í fyrra.
 

3. fl karla
A-liðið byrjaði frekar brösuglega í vor en strákarnir hafa náð að bæta leik sinn og eru með 11 stig í B-riðli eftir 10 leiki. Þess má geta að B-riðlinn er óvenju sterkur í ár og tala menn um að hann sé jafnvel sterkari en A-riðillinn. B-liðið hefur svo farið rólega af stað með 7 stig eftir 10 leiki en búast má við að strákarnir fari að hala inn stigin á komandi vikum.
 

3. fl kvenna
A-liðið hefur byrjað gríðarlega vel og er í efsta sæti B1-riðils með 22 stig eftir átta leiki. Stelpurnar hafa unnið alla sína leiki fyrir utan eitt jafntefli og eru til alls líklegar í úrslitakeppninni í haust. Þær eru svo einnig komnar í undanúrslitin í bikarnum.
 

4. fl karla
A-liðið hefur spilað gríðarlega vel í sumar og er í efsta sæti B-riðils með 21 stig eftir átta leiki. Strákarnir hafa unnið alla sína leiki nema einn sem tapaðist. B-liðið er í efsta sæti síns riðils með 21 stig eftir sjö leiki og allir leikirnir hafa unnist þar. C-liðið er í efsta sæti síns riðils með 19 stig eftir sjö leiki en þeir hafa unnið alla sína leiki nema einn sem endaði með jafntefli. Samanlagt eru liðin þrjú með 126 mörk í plús svo blússandi sóknarleikur hefur einkennt þennan flokk í sumar. Verður gaman að fylgjast með gengi liðanna í úrslitakeppninni.
 

4. fl kvenna
A-liðið hefur gengið ágætlega og er með 9 stig eftir 9 leiki um miðjan A-riðil. Stelpurnar byrjuðu frekar brösuglega í vor en þær hafa bætt leik sinn umtalsvert og líklegt er að stigin fari að detta inn með komandi leikjum.
 

5. fl karla
Flokkurinn er með sex lið á Íslandsmóti. Liðunum hefur gengið misjafnlega eins og eðlilegt er með slíkan fjölda af liðum. Helst má nefna að A-liðið er um miðjan A-riðil og D-liðið er í efsta sæti síns riðils og gæti varið Íslandsmeistaratitil sinn frá því í fyrra. Annars hafa strákarnir lagt sig fram með sínum liðum og gert sitt allra besta.

 

5. fl kvenna
Flokkurinn er með þrjú lið á Íslandsmóti og hefur liðunum gengið vel það sem af er sumri. A-liðið er í næstefsta sæti B-riðils eftir sex leiki með 15 stig. B-liðið er í þriðja sæti síns riðils með 16 stig eftir átta leiki. C-liðið er svo með þrjú stig eftir fimm leiki í næst neðsta sæti síns riðils. Stelpurnar hafa átt marga góða leiki í sumar og gert sitt besta.

 

Að auki hafa 6.fl karla og kvenna spilað í Pollamóti og Hnátumóti KSÍ í sumar þar sem árangurinn var ágætur og okkar iðkendur voru félaginu til sóma. 7.fl karla tók þátt í Norðurálsmótinu með góðum árangri auk þess sem 7.fl kvenna tók þátt í mótinu sem gestalið og stóðu stelpurnar fyrir sínu þar sem endranær. Einnig væri hægt að nefna hér fjölda móta sem okkar iðkendur hafa tekið þátt í í vetur og sumar en í öllum þessum mótum stóðu þau sig með sóma og megum við vera stolt af þessum frábæru krökkum.

 

Næsti pistill verður að loknu Íslandsmóti yngri flokka þar sem greint verður frá árangri þeirra í sumar. Að endingu má minnast á að á heimasíðunni má finna heimasíður yngri flokka félagsins undir flokkar og þar er hægt að leita upplýsinga og annars efnis hjá hverjum flokki. 

Til baka