Góður 3-0 sigur gegn Grindavík
06.09 2015Meistaraflokkur kvenna sigraði Grindavík örugglega í fyrri leik liðanna í undanúrslitum um sæti í efstu deild. Skagastúlkur byrjuðu leikinn af krafti og á 15. mín skoraði Unnur Ýr Haraldsdóttir fyrsta markið úr aukaspyrnu fyrir utan teig. Skagastúlkur höfðu áfram undirtökin undan vindinum í fyrri hálfleik án þess að ná að bæta við mörkum. Leikurinn var í jafnvægi í síðari hálfleik en á 67. mín var Eyrún Eiðsdóttir toguð niður í vítateignum og dæmd vítaspyrna sem Unnur Ýr skoraði úr af öryggi. Heiður Heimisdóttir bætti svo við þriðja markinu á 73.mín þegar hún komst framhjá markmanni Grindavíkur og skoraði í autt markið. Flottur sigur hjá stelpunum og gefur þeim gott veganesti fyrir seinni leik liðanna í Grindavík næstkomandi miðvikudag kl. 17:15. Við hvetjum stuðningsmenn til að fjölmenna til Grindavíkur á miðvikudag og styðja stelpurnar.
Maður leiksins var valinn Unnur Ýr Haraldsdóttir en hún fékk að gjöf fallegt málverk eftir Hrönn Eggertsdóttur, en Hrönn hefur kennt myndlist í Brekkubæjarskóla, Fjölbrautaskóla Vesturlands og við Iðnskólann á Akranesi og haldið ýmis námskeið fyrir börn og fullorðna í gegnum árin. Er henni færðar kærar þakkir fyrir gjöfina.
Meðfylgjandi mynd var tekin eftir leikinn þegar Unnur Ýr tók við gjöfinni úr hendi Maríu Mist, fulltrúa heimaleikjahóps ÍA.