Grátlegt tap gegn FH í kvöld

10.08 2015

Skagamenn fengu FH-inga í heimsókn á Norðurálsvöllinn og endaði leikurinn með 2-3 sigri gestanna. Leikurinn hófst af krafti af hálfu okkar manna og strax á fjórðu mínútu skoraði Arnar Már Guðjónsson með góðum skalla eftir hornspyrnu frá Ásgeiri Marteinssyni. Gestirnir voru samt sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fengu nokkur ágæt færi sem þeir nýttu ekki. En um miðjan fyrri hálfleikinn gerðu Skagamenn sig sekan um varnarmistök og FH refsaði fyrir það með góðu marki. Bæði lið fengu færi eftir það en staðan í hálfleik var 1-1.

 

Í seinni hálfleik byrjuðu Hafnfirðingar af krafti og á þriggja mínútna kafla skoruðu þeir tvö ódýr mörk eftir sofandahátt í vörn ÍA. Þeir héldu áfram að sækja af krafti en náðu ekki að bæta við fjórða markinu þrátt fyrir færi. Þegar á seinni hálfleikinn leið komust okkar menn betur í takt við leikinn og fóru að skapa sér færi. Garðar Gunnlaugsson var sérstaklega ógnandi undir lokin og hann skoraði fallegt mark eftir einstaklingsframtak á 81. mínútu. Skömmu síðar átti Jón Vilhelm Ákason skot í stöngina og FH-ingar voru í nauðvörn undir lok leiksins. Á síðustu mínútu leiksins fékk Marko Andelkovic svo beint rautt spjald vegna mótmæla þegar dómari leiksins stöðvaði leikinn vegna meiðsla. Eftir það var leikurinn flautaður af.


Leikurinn endaði því með 2-3 sigri FH þar sem þeir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fyrri hluta seinni hálfleiks en þegar leið á hann komu Skagamenn af krafti inn í leikinn og hefðu verðskuldað jafntefli í leiknum. Baráttan í leiknum var til fyrirmyndar og föstu leikatriðin voru mjög hættuleg ásamt útspörkum Árna Snæs í markinu. En varnarmistökin voru dýr í leiknum og gestirnir refsuðu fyrir þau. Staðan á botninum þéttist umtalsvert við úrslitin í þessari umferð og við förum í heimsókn í Kópavoginn þann 17. ágúst þar sem við mætum Breiðablik. Þar kemur ekkert annað til greina en þrjú stig. 

Til baka