Gríðarlega mikilvægur sigur á Leikni í kvöld

26.07 2015

Skagamenn fengu Leiknismenn í heimsókn í kvöld og endaði leikurinn með 2-1 sigri okkar manna. Leikurinn hófst frekar varfærnislega enda bæði lið í fallbaráttu og máttu ekki við tapi. Nokkur færi komu á báða bóga en það var á 38. mínútu leiksins sem Skagamenn komust yfir með marki frá Eggerti Kára Karlssyni eftir að Ásgeir Marteinsson hafði átt skot sem markvörður Leiknis varði út í vítateig. Fátt markvert gerðist eftir þetta og því leiddi ÍA 1-0 í hálfleik.

 

Leiknismenn komu mun grimmari inn í seinni hálfleikinn án þess að skapa sér mörg færi framan af leik. Þeir áttu þó skalla í þverslána og brenndu af úr dauðafæri í eitt skiptið. Skagamenn bökkuðu óþarflega mikið um tíma og Leiknismenn virtust líklegri en náðu ekki að brjóta sterka vörn ÍA á bak aftur. Það var svo á 84. mínútu sem Skagamenn kláruðu leikinn þegar Marko Andelkovic skoraði með góðu skoti eftir sendingu frá Þórði Þorsteini Þórðarsyni. Leiknismenn minnkuðu muninn undir lok leiksins og áttu tækifæri á að jafna metin en þeim tókst það ekki og leiknum lauk skömmu síðar.

 

Leikurinn endaði því með 2-1 sigri í leik þar sem Skagamenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en í þeim seinni átti Leiknir nokkur góð færi. Skagamenn spiluðu sterkan varnarleik þar sem Ármann Smári Björnsson og Þórður Þorsteinn Þórðarson stóðu fyrir sínu. Sóknarleikurinn var ágætur en við þurfum að nýta færin betur til að klára leiki, í kvöld munaði litlu að liðinu væri refsað fyrir að skora ekki úr dauðafærum. Sigurinn var gríðarlega dýrmætur og tryggði að við erum nú sex stigum frá fallsæti. Staðan er því góð sem stendur en við megum ekki sofna á verðinum og mæta vel búnir í Víkina næst.

Til baka