Gulli Jóns á von á erfiðum leik gegn BÍ/Bolungarvík

28.08 2014

Skaginn á verðugt verkefi fyrir höndum á laugardaginn kemur þegar lið BÍ/Bolungarvíkur kemur í heimsókn á Norðurálsvöllinn. Lið Djúpmanna hefur verið að fínu skriði undanfarið og er taplaust í síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni. Skagaliðið hefur einnig átt góðu gengi að gegna síðustu vikur og í síðustu umferð vannst til að mynda sætur sigur í toppslagnum gegn Leikni R.

Leikurinn hefst kl. 14.00 á laugardaginn en við fengum Gunnlaug Jónsson þjálfara ÍA til þess að fara yfir gang mála með okkur og byrjuðum á að spyrja hann út í síðasta viðurreign gegn Leikni R.:

"Það var mjög sætt að klára þann leik í blálokin, þetta var mikil stöðubarátta allan leikinn þar sem Leiknir var sterkari í fyrri hálfleik en við tókum yfirhöndina í þeim síðari. Það var ekki mikið um opin marktækifæri í þessum leik þannig að það stefndi í okkar fyrsta jafntefli en við vildum kára þetta með sigri og það tókst. Við vorum ekki alveg sáttir með okkar leik í hálfleik en eftir að hafa farið vel yfir stöðuna og gert nokkrar taktískar breytingar þá vorum við mikið beittari í seinni hálfleik og ég var heilt yfir mjög ánægður með liðið. Það er erfitt að eiga við Leiknis-liðið, þeir eru mjög vel skipulagðir og hafa ekki fengið mörg mörk á sig þannig að það var virkilega sterkt að vinna þá á útivelli og vera þar með eina liðið sem lagt hefur þá að velli í sumar og það tvisvar sem er mjög sterkt."

Hvernig hafa æfingar gengið hjá liðinu í þessari viku og eru einhver meiðsli að plaga hópinn þessa dagana?

"Æfingar vikunnar hafa gengið vel, nú er verkefnið okkar að fókusa á næsta leik en það eru engin forföll í hópnum þannig að allir eru klárir í slaginn gegn BÍ/Bolungarvík."

Framundan er heimaleikur á Norðurálsvellinum gegn BÍ/Bolungarvík. Lið Djúpmanna hefur vegnað vel síðustu vikur og unnið m.a. þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum. Hvernig horfir sá leikur við þér?

"Við erum að mæta liði sem hefur tekið miklum stakkaskiptum síðan við mættum þeim í lok júní og sigruðum örugglega fyrir vestan. Þeir styrktu sig mjög myndarlega í glugganum, bættu við sig 6 mönnum sem hafa allir komið inn í byrjunarliðið auk þess sem bæði Nigel Quashie og Loic Ondo eru orðnir heilir og munar um minna. Þeir hafa fundið liðið sitt og eru á miklu skriði þannig að við verðum í það fyrsta að gera okkur grein fyrir að við erum að mæta allt öðru liði á laugardaginn og þeir munu vilja kvitta fyrir skellinn úr fyrri umferðinni. Við ætlum okkur að sjálfsögðu sigur og tryggja stöðu okkar í öðru sætinu en ég á von á erfiðum leik" sagði Gunnlaugur Jónsson í samtali við vefsíðu KFÍA

Við hvetjum Skagamann til þess að fjölmenna á leikinn a laugardaginn sem hefst kl. 14.00 og styðja strákanna í baráttunni um laust sæti í efstu deild að ári.

Til baka