Hulda Birna Baldursdóttir ráðin framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA

16.08 2016

Hulda Birna Baldursdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri knattspyrnufélags ÍA (KFÍA) og tekur hún við starfinu af Haraldi Ingólfssyni frá 1. nóvember nk. en fram að þeim tíma mun hún taka þátt í einstökum verkefnum félagsins og setja sig inn í starfið. Hulda Birna starfaði áður sem markaðsstjóri Tækniskólans og framkvæmdastjóri Stelpugolfs fyrir PGA á Íslandi.

 

Hulda Birna Baldursdóttir, verðandi framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA:  „Það er mjög spennandi að ganga til liðs við KFÍA á þessum tímapunkti. Ég þekki vel til félagsins, lék með yngri flokkum félagsins og meistaraflokki í nokkur ár, spilaði svo með BÍ og Stjörnunni. Markmiðið er að koma KFÍA í fremstu röð og keppa um titla á komandi árum. Það verður gert með því að því að byggja á öflugu uppeldis- og afreksstarfi og vera með þjálfara í fremstu röð. Ég tek nýjum áskorunum fagnandi og hlakka til að starfa með öflugum hópi stjórnar, starfsmanna, iðkenda og þjálfara KFÍA.“

 

Um Huldu Birnu:

Hulda Birna lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 2002 og MS í stjórnun frá Bifröst 2009. Hún er 43 ára gömul, gift Einari Erni Jónssyni og eiga þau fjögur börn.

 

Hulda Birna starfaði hjá Tækniskólanum frá árinu 2008. Hún hefur starfað þar sem félagsfulltrúi, kennari og markaðsstjóri átta undirskóla þar á meðal Flugskóla Íslands. Að auki var hún framkvæmdastjóri Brúðkaupssýningarinnar Já í Smáralind 2001-2005, framkvæmdastjóri Húnavöku á Blönduósi 2006 til 2012 og nú síðustu þjú ár framkvæmdastjóri Stelpugolfs fyrir PGA á Íslandi. Hulda Birna situr í stjórn PGA, hefur verið formaður barna og unglingráðs í Fylki síðustu 3 ár.

 

Frekari upplýsingar:

Magnús Guðmundsson

formaður Knattspyrnufélags ÍA

magnus@lmi.is

 

Á meðfylgjandi mynd má sjá varaformann stjórnar KFÍA, Sævar Frey Þráinsson, Huldu Birnu Baldursdóttur, nýráðinn framkvæmdastjóra og Magnús Guðmundsson, stjórnarformann félagsins við undirritun ráðningarsamnings nú fyrr í kvöld. 

Til baka