ÍA tapaði gegn Breiðablik í kvöld

13.07 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði við Breiðablik í kvöld í áttundu umferð Pepsi-deildarinnar. Blikar byrjuðu af nokkrum krafti og ætluðu að skora sem fyrst. Gestirnir fengu ágæt færi sem þeir náðu ekki að notfæra sér en Skagamenn spiluðu mjög sterkan varnarleik og byggðu á skyndisóknum. ÍA fékk nokkur hálffæri í hálfleiknum sem ekki náðist að nýta. Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum og ætlaði hvorugt liðið að gefa neitt eftir. Staðan í hálfleik var því markalaus.
 

Í seinni hálfleik var svo áfram mikil barátta í gangi þar sem blikar sóttu töluvert en stelpurnar vörðust af miklum krafti. Eitthvað hlaut undan að láta og blikar skoruðu gott mark um miðjan hálfleikinn. ÍA þurfti að færa sig aðeins framar á völlinn til að jafna metin og fengu ágæt færi en sem fyrr vantaði að klára sóknirnar með marki.

 

Breiðablik átti í basli með stelpurnar uns dæmd var vítaspyrna á á ÍA fyrir hendi, sem var frekar harður dómur. Úr spyrnunni skoruðu gestirnir þegar skammt var til leiksloka. Þeir bættu svo þriðja markinu við undir lokin og þrátt fyrir góðan leik hjá ÍA endaði leikurinn með sigri blika 0-3.
 

Næsti leikur er gegn KR á KR-vellinum sem fer fram þriðjudaginn 19. júlí kl.19:15. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka