ÍA tapaði gegn ÍBV í fyrsta leik Pepsi-deildar

02.05 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í gærkvöldi við ÍBV á Hásteinsvelli. Þetta var fyrsti leikur ÍA í Íslandsmótinu. Liðið byrjaði fyrri hálfleikinn ágætlega og skapaði sér nokkur hálffæri sem ekki tókst að nýta. Leikmenn ÍBV tóku svo öll völd á löngum köflum í hálfleiknum og skoruðu þrjú góð mörk og hefðu getað bætt við mörkum. Okkar menn virtust ráðalausir gegn öflugum leik heimamanna. Staðan í hálfleik var því 3-0 fyrir ÍBV.

 

Í seinni hálfleik var svo meira jafnræði meðal liðanna. Skagamenn komu ákveðnari í leikinn og sóttu meira án þess að ná að minnka muninn og koma spennu í leikinn. Eyjamenn spiluðu af öryggi og sóttu eftir því sem þörf var á og það skilaði einu marki undir lok leiksins. Leikurinn endaði því 4-0 fyrir heimamenn sem voru mikil vonbrigði í fyrsta leik fyrir Skagamenn.

 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Ármann Smári, Arnór Snær og Þórður Þorsteinn. Á miðjunni voru Albert, Arnar Már og Martin. Í sókninni voru Garðar, Jón Vilhelm og Ólafur Valur. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Eggert Kári, Steinar og Stefán Teitur. Stefán spilaði þar sinn fyrsta leik í efstu deild og er honum óskað til hamingju með þann áfanga.

 

Næsti leikur er svo gegn FH á Kaplakrikavelli sunnudaginn 8. maí kl. 19:15. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn eftir erfiða byrjun.

Til baka