ÍA tapaði gegn ÍBV í kvöld í baráttuleik

31.08 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði við ÍBV í kvöld í 14. umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn byrjuðu af krafti og sköpuðu sér ágæt færi sem nýttust ekki. Þeir voru sterkari aðilinn framan af en ÍBV kom sterkari inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn. Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum og ætlaði hvorugt liðið að gefa neitt eftir. Staðan í hálfleik var markalaus.

 

Seinni hálfleikur hófst svo illa því Eyjamenn komust yfir strax á fyrstu mínútu. ÍA sótti þá ákaft og fékk vítaspyrnu skömmu síðar þegar brotið var á leikmanni okkar innan vítateigs. Cathrine Dyngvold tók vítaspyrnuna en boltinn fór í stöngina og aftur fyrir endamörk. Virkilega gott færi sem fór forgörðum. 


Stelpurnar börðust þó áfram af krafti og áttu góðar sóknir til að jafna metin en sem fyrr var vandamálið að nýta færin og koma boltanum í netið. Eyjamenn spiluðu svo af varkárni og beittu skyndisóknum sem strönduðu á sterkri vörn ÍA. Þrátt fyrir ágætar sóknarlotur Skagamanna undir lokin náðist ekki að jafna metin. Leikurinn endaði því 0-1 fyrir ÍBV.


Næsti leikur er gegn Stjörnunni á Norðurálsvellinum sem fer fram þriðjudaginn 6. september  kl.17:30. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka